Miðvikudagur, 5. mars 2008
Allur skalinn upp og niður
Sorg
Reiði
Skilningsleysi
Vantrú
Sektarkennd
Sjálfsásökun
Söknuður
Þetta eru þessar helstar sem ég hef bögglast með í gegnum áfallið mikla í ágúst síðastliðnum. Ég varð svo reið, við lífið og þann sem öllu ræður.
Skilningsleysið , ég skildi ekki hvernig hann gat gert þetta.
Vantrúin helltist yfir mig, hvernig gat þetta gerst ? Hvernig datt honum þetta í hug ?
Sektarkennd, vonda vonda tilfinningin um að ég hefði brugðist barninu mínu herfilega
Sjálfsásökun, ég gerði eitthvað eða gerði það ekki. Þetta hlaut að vera mér að kenna.
Söknuður svo sár að stundum er eins og bjarg hvíli á brjóstkassanum. Í ömurlegum vanmætti kjökra ég innra með mér og sé ekki hvernig lífið á að geta haldið áfram án hans.
---------------------------------------------------------------------------------------
Dofinn sem kom yfir mig var undarlegur, í fullkomnu skilningsleysi strauk ég vangann hans, ískaldan á sjúkrahúsi Selfoss. Það féll ekki eitt tár. Þá þegar var ég búin að bíta fastar á jaxlinn en ég taldi mögulegt. Ég reyndi af alefli að taka höggið af systkinum hans og stóð eins upprétt og ég gat. Þau áttu skelfilega bágt, þau voru svo brotin. "það er eins og brosið hafi verið þurrkað af andlitinu á mér og það kemur aldrei aftur " sagði Björn brostinni röddu. Þau áttu svo bágt að maður sá að þau liðu líkamlegar kvalir.
Mér tókst að skipuleggja útförina og halda andlitinu nánast í gegnum þetta allt nema við kistulagninguna hans. Þá kom örvæntingin fram, svo sár -svo erfið. Presturinn fól mér það verkefni að breiða líkblæjuna yfir andlit hans þegar athöfninni lauk. Að kveðja hann, endanlega.
Hann var ekki sjálfum sér líkur -hann hafði verið krufinn og merki þess sáust svo greinilega. Það kvaldi svo Hjalta bróður hans..".andlitið hans passar ekki" grét hann. Það var rétt hjá honum, nebbinn hans virkaði ókunnugur, augun sokkin...lífleysið algert. Hræðileg sjón...
Ég ákvað að hlífa fjölskyldunni fyrir minni kvöl, tók gamla harðjaxlabragðið á þetta og komst upp með það. Ég rausaði hérna, grét mig í gegnum hverja færsluna á fætur annarri. Las kommentin ykkar og grét meira. Myrkrið í sálinni þessar fyrstu vikur er eitthvað sem ég vil ekki og get ekki endurtekið. Ég grét og skammaði Guð. Því tókstu ekki mig frekar !! Taktu mig núna þá, þú ert búinn að skemma allt lífið mitt, nú er það handónýtt !! Var ekki nóg komið ?
Gamli jaxlinn er ekki betri en svo að enn hef ég bara farið í aðra vinnuna mína, hina get ég ekki feisað enn. Að sitja ein með sjálfri mér og bíða eftir kalli frá stöðinni er bara flókið ennþá en samt veit ég að bráðum verð ég að láta mig hafa það. Einhvernveginn verð ég að fjármagna fyrirhugaðar viðgerðir á húsinu í sumar. Það hefst ekki nema með vinnu.
------------------------------------------------------------------------------------
Mér er ekki vorkunn núna, ég vildi skrifa niður tilfinningarnar svo ég hefði það hérna í handraðanum. Ég er komin heillangt frá verstu dögunum. Ég nota oftast það sama á sjálfa mig, þetta hérna ; Ekki vera lítil og brotin, hann Himmi hefði ekki viljað það. Hann elskaði þig, mömmuna sína. Hann gat bara ekki meira basl sjálfur, þessi elska.
Góða nótt
Athugasemdir
Knús mín kæra
Kidda (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 00:58
Guð hvað ég þekki algjörlega þessar aðstæður sem þú ert í... ég fékk alveg sting í hjartað...
Þú ert algjör hetja, sofðu fallega
Signý, 5.3.2008 kl. 01:05
Hvað er hægt að segja við þig kæra móðir. Ég finn til að lesa þetta og hef allan mögulegan skilning á þinni líðan (engin veit fyrr en reynt hefur). Þú ert sterk og stór persóna, það skín í gegn um allt sem þú skrifar. Bestu kveðjur frá mér, alltaf.
Halla Rut , 5.3.2008 kl. 01:06
Það er skömm að því hversu margir ungir menn hafa tekið líf sitt. Þjóðfélagið sem heild er ekki að standa sig. Það er ekki tekið á þessari örvæntingu og vanlíðan á réttan hátt. Ég þekki afleiðingar, ýmisskonar neyslu, bæði áfengis og fíkniefna. Haltu áfram að standa þig svona vel
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 5.3.2008 kl. 01:09
Í gegnum skrifin þín hef ég upplifað þetta eins og hægt er. Þú skrifar myndrænt og opinskátt um þínar tilfinningar og ég tel að það sé einn sterkasti lækningamátturinn í ferli sorgarinnar. Þú hefur opnað augu mín, og í kjölfarið á reynslu þinni, fór ég að hugsa öðruvísi um minn ungling. Ég verð að viðurkenna það að svona nokkuð var svo langt frá mér.
Ég frétti svo af þessu á blogginu þínu, hjartað missti úr slag, þetta var að gerast hjá þér, sonur þinn, drengur sem ég kannaðist við, þú .. af öllum. Ég hef ekki munað eftir mörgum úr minni fortíð eins og þú kanski skilur, enda veistu mikið um hana, en þú hefur aldrei horfið mér úr minni. Ástæðan er sú að þú varst alltaf góð við mig, þó að þínir dagar væru slæmir, þá áttum við mörg góð samtöl um lífið og tilveruna sem ennþá dag í dag hafa gert mér gang og gott.
Þú ert góð manneskja og allt sem þú hefur skrifað hefur hjálpað fullt af fólki. Það eru ekki allir góðir í að koma tilfinningum sínum á blað, hvað þá að tjá sig um það. En í gegnum skrifin þín, þá hafa margir fundið lausn. Þó þú kanski gerir þér ekki greyn fyrir því, þá ertu áhrifavaldur til góðs í margar áttir.
Guð veri með þér elsku vinkona á erfiðum tímum.
Knús í nóttina.
Guðrún B. (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 02:14
Megi ljósið leita þig uppi Ragnheiður mín, og fylgja þér og þínum öllum inn í framtíðina. Mikill er styrkur þinn þrátt fyrir erfiðar stundir sem engir foreldrar ættu að þurfa að ganga í gegnum. Þú ert greinilega á góðri leið í átt að framhaldinu, tíminn er greinilega að ná því að milda sorg þína. Í andanum fylgist engillinn þinn með því þegar dásamleg móðir nær því að halda áfram veginn og friður leggst yfir áhyggjufulla ásjónu hans.
Það er kórrétt hjá þér Ragnheiður - alveg hárrétt - að hann gat ekki meira sjálfur, en hann ætlaðist aldrei til þess að hin dásamlega móðir hans þyrfti að gefast upp um leið. Núna ert þú að gleðja hann og gera hann hamingjusaman, með því að elska hann eins mikið og áður en halda samt áfram að lifa.. mundu það ætíð! Gleði og lífsorka þín nær til himna Ragnheiður, sorg þín skilar sér þangað líka! Láttu gleðina ráða ferðinni því hún getur svo mörgu áorkað, bæði hér - og í himnaríki! Vona að allt það góða fylgi ykkur öllum..
Tiger, 5.3.2008 kl. 02:24
Sæl Ragnheiður.
Ég hef fylgst með þér allt frá andláti hans Himma þíns, blessuð sé minning þess ljúfa drengs.
Sjálf hef ég ekki staðið í þínum sjúpu sporum. Ég hinsvegar varð fyrir því að missa föður minn í bílslsysi á Reykjanesbrautinni þann 16/10 91 - slysfarir. Síðan missti ég systur mína, litlu elskulega systur mína þann 26/2 2007 eftir að hún hafði framið sjálfsvíg í kjölfar áralangrar baráttu við anorexíu og búlemíu. Sjálfsvíg er sjálfsvíg að mínu mati. Við sem eftir stöndum - hvort heldur við höfuð ætlað okkur að jringja/heimsækja/senda bréf eða hvað - við gátum engu breitt. Þeirra var völin. Ég er þess fullviss að þau hafi vitað hve kvalnin við hin stondum eftir - um leið er ég þess fullviss að þessar elskur liðu meir en við.
Elsku Ragnheiður mín, ég veit að þú syrgir son þinn - sem er að sjálfsögðu ekkert á við að syrgja litlu sys. É ger þess þó fullviss að við eigum margt sameiginlegt Ef þú vilt hafa sambanc þá endilega sendu línu - það kostar ekkert :/
Kv. Kolla
Kolla (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 03:18
Langar svo að segja eitthvað ofsalega notalegt og hughreystandi við þig... en er bara tóm að innan eftir þennan lestur.
Vona að þú hafir átt friðsæla nótt og að dagurinn í dag verði þér aðeins auðveldari...
Þú ert hetja!
Kærleikskveðjur
Hulla Dan, 5.3.2008 kl. 06:25
Elsku litla stelpan mín, í huganum tek ég þig í faðm minn og gef þér alla þá orku sem alheimskrafturinn gefur og hann er mikill.
Þú biður um að geta allt sem þú villt getur og þarft, og þú munt
verða bænheyrð.
Kærleikskveðjur þín Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 5.3.2008 kl. 07:35
Knús
Slaugan
Áslaug Ósk Hinriksdóttir, 5.3.2008 kl. 08:32
Þú ert svo sterk og dugleg- ótrúlegt að lesa þessa færslu...með tárin í augunum. Knúsur á þig ótrúlega kona.
Dísaskvísa, 5.3.2008 kl. 08:51
Það flæða tár yfir lyklaborðið hjá mér.Nóaflóð ?Nei ég græt strákana okkar.Það öskrar hver fruma í líkamanum af sársauka og sorg.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 09:20
Þú átt stórt lán, Ragga. Og það er að geta skrifað eins og þú gerir. Bæði til að koma frá þér tilfinningum og hugsunum og til að deila með okkur hinum. Þetta er ekki öllum gefið og ég samgleðst þér vegna þess. Haltu áfram að skrifa. Sendi þér stórt faðmlag með hugarflugi.
Hugarfluga, 5.3.2008 kl. 09:27
Kæra Ragga. Þessi færsla hefur djúp áhrif á þann sem les. Það þekkja það allir sem eru foreldrar, að mesta hræðslan í lífinu er að missa barn.
Sat með syni mínum um daginn að horfa á bíómynd þar sem faðir missti son sinn. Situr í mér það sem sonur minn spurði mig um þá: mamma ef ég ætti son og hann myndi deyja, má ég þá drepa mig. Fannst hann upplifa svo sterkt sorgina sem fylgir því að missa barn.
Vona að þú eigir góðan dag
M, 5.3.2008 kl. 09:48
Hrönn Sigurðardóttir, 5.3.2008 kl. 10:17
Mikið langar mér að taka utan um þig og og faðma þig en ég skil þig mjög vel elsku Ragga mín.
Kristín Katla Árnadóttir, 5.3.2008 kl. 11:00
Takk Ragnheiður
Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 11:11
Faðmlag og knús yndislega kona
Brynja skordal, 5.3.2008 kl. 12:25
Hvað getur maður sagt? Ég dáist að þér elsku Ragga, fyrir hugrekkið sem þú hefur alltaf sýnt.
Jenný Anna Baldursdóttir, 5.3.2008 kl. 12:27
Skil sorg þína vel Ragga mín....Ég horfi upp á systur mína ganga í gegnum það sama....söknuðurinn er svo sár, óbærilegur.....
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 5.3.2008 kl. 15:15
Ragnheiður mín. Þú skrifar:
"Ég er komin heillangt frá verstu dögunum. Ég nota oftast það sama á sjálfa mig, þetta hérna ; Ekki vera lítil og brotin, hann Himmi hefði ekki viljað það. Hann elskaði þig, mömmuna sína. Hann gat bara ekki meira basl sjálfur, þessi elska."
Þessi skrif eru mér gleðiefni. Þú hefur unnið svo vel í sorg þinni að það er aðdáunarvert... og ert að uppskera núna í samræmi við það. Auðvitað koma reglulega upp erfiðir tímar hjá þér á næstunni... niðursveiflur af minnsta tilefni... en góðu stundunum fjölgar og þú nýtir þær betur. Þú ert skynsamasta mannvera í heimi Ragnheiður og mér finnst þú algjört yndi.
Anna Einarsdóttir, 5.3.2008 kl. 16:43
Þú ert dugleg kona Ragnheiður og takk fyrir að deila þessu. Hann Hilmar þinn má vera stoltur af mömmu sinni og líka hin börnin þín. Þú getur líka verið stolt af sjálfri þér.
Bestu kveðjur og knús frá mér.
Sigrún Óskars, 5.3.2008 kl. 20:44
Það er ekki langt síðan að ég fór að lesa bloggsíður en en þín var með þeim fyrstu sem ég datt inná og fór að lesa aftur í tíman og þvílíkur styrkur sem þú hefur sýnt hér það er bara aðdáunarvert , ég lít upp til þín.
Eyrún Gísladóttir (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 23:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.