Mánudagur, 18. febrúar 2008
Fyrir 6 mánuðum
var ég heima, það var laugardagur á fallegum ágústdegi. Ég var í sumarleyfi í vinnunni minni. Ég hafði örlitlar áhyggjur, ég hafði ekki heyrt almennilega í óþekktarorminum mínum að austan. Ég hugsaði með mér ; æj kallanginn, hann notar áreiðanlega allan símatímann sinn í kærustuna. Mamman bíður bara, það er ekki svo langur tími eftir hjá honum blessuðum.
En hann vék ekki í huga mér allan daginn né allt kvöldið og ég varð andvaka, drollaði langt fram á nótt og ákvað að reyna að hringja austur næsta dag.
Samkvæmt minni bestu vitund voru allir aðrir í lagi eða sko í eins miklu lagi og þeir geta verið miðað við fyrra líferni.
Daginn eftir kom höggið. Hið ómögulega hafði gerst. Sá brosmildasti og glaðasti af mínum börnum hafði fyrirfarið sér í klefanum sínum fyrir austan. Við Solla ræddum þetta í gær og við erum vissar um að hann taldi sig vera að gera okkur greiða, losa okkur við vandamálið sem hann taldi sjálfan sig vera. Við erum líka fullvissar um það að hann hefði ekki gert þetta hefði hann gert sér í hugarlund sársaukann sem þetta olli okkur, fólkinu hans. Það er sko ekki búið enn. Allir afmælisdagar okkar allra verða með svo stóru skarði, afmælið hans hjómið eitt. Dánardagurinn hans sorgardagur. Jólin tómleg. Allir hinir dagarnir þarna á milli undirlagðir af sorg og sársauka. Auðvitað munu sumir dagar verða bjartir og glaðir og þeim mun líklega fjölga með árunum en skarð hans fyllist aldrei.
Hann var það sem fólk kallar óalandi. Hann braust inn í bíla. Hann stal bílum. Hann braust tvisvar inn í hús. Hann ók próflaus. Hann ók of hratt. Hann prufaði dóp. Hann prufaði líka vín.
En hann var strákurinn minn og ég missti aldrei vonina um að hann myndi sjá að sér og hætta óþægðinni. Ég gafst ekki upp fyrr en 19 ágúst 2007. Þá varð öll von úti.
Hann var krútt. Hann hringdi í mig flesta mæðradaga og sagði ; til hamingju með daginn ! Stundum vissi ég ekkert hvað hann var að tala um og þá flissaði hann og sagði ; Mamma! Það er mæðradagurinn !! Þetta tókst honum að muna blessuðum. Hann kom oft við hjá mér í vinnunni og ég fékk knús. Enn horfi ég á ókunnuga bíla fyrir utan og sakna Himma.
Minning hans verður mér alltaf dýrmæt. Minning um uppátækjasaman smástrák með heillandi bros. Síðar breyttist hann í frekar ólánlegan ungling, allur mislangur eins og unglingsstrákar eru. Hann óx upp í að verða glæsilegur ungur maður. Mikið kvennagull.
Stundum fannst honum ég skamma hann of mikið. En hann var samt góður við mig..hann reyndi að skilja mig en fljótfærnin og kjánaskapurinn fóru stundum alveg með hann framúr sjálfum sér. Oft var ég svo sár út í hann og oftast þegar hann gerði eitthvað og kannski nýkominn úr fangavist. Þá varð ég sár, ég vissi að þá myndi hann þurfa brátt að fara inn aftur.
Síðan hann fór þá hef ég keppst við að muna góðu hliðarnar hans, hlýjuna og fallega brosið. Það hefur ekki verið erfitt.
Fyrir sex mánuðum var allt í lagi.
Daginn eftir kom höggið.........
Athugasemdir
Þú gætir verið að lýsa mínum dreng.........
Svona eru þeir líka svo margir! Öllum finnst þeir óalandi og óferjandi en þeir eru samt mömmusinnardúlludúskar
Haltu fast í góðu minningarnar. Það eru þær sem skipta máli
Hrönn Sigurðardóttir, 18.2.2008 kl. 14:11
Ragga mín það er ekki mikið sem ég get sagt, en þó veit ég að þú átt bara að muna góðu og skemmtilegu stundirnar.
Það er engu hægt að breyta, en þú getur búið til gleðiumgjörð um minningu Hilmars, og þangað inn má ekkert neikvætt koma né heldur sorg, fjölskyldan getur öll tekið þátt í þessu og vertu viss smá saman
dvínar sorgin og gleðin tekur yfirhöndina.
hann mun glaður taka þátt í þessu með ykkur.
Sendi þér og þínum ljós og engla kveðjur. Þín Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 18.2.2008 kl. 14:13
Það nístir í hjartað að lesa þetta. Þetta er örugglega mesta áfall sem nokkur manneskja getur orðið fyrir. Vonandi fjölgar björtu dögunum smám saman. Hálft ár er í raun ekki langur tími og smám saman hverfa vonandi erfiðu minningarnar og þær björtu taka völdin. Ég samhryggist þér svo innilega að ég get varla lýst því.
Helga Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 14:21
Kæra Ragnheiður.
Þín sorg og söknuður er mér svo skiljanlegur, vona bara að við fáum meiri frið í sálinni með tímanum. Ég sveiflast enn í reiðinni, sorginni, hugsunum um allt sem hefði getað orðið og svo framvegis. Við reynum með góðra hjálp að vinna okkur út úr þessu, þótt ég skilji ekki ennþá hvernig það á að geta orðið.
Sendi þér ljós og frið.
Marta smarta, 18.2.2008 kl. 15:45
Sæl aftur Ragnheiður. Ég sá að þú varst að spyrja um engla á leiði
mosaik.is, Hamarshöfða 4, hefurðu prófað að kíkja á þá síðu, eða í verslunina. Þar fékk ég mjög fallegan fugl sem ég setti á steininn hans Stebba míns, fuglinn kemur vel undan snjó og frosti. Þar sá ég líka fallega engla og margt fleira sem ég vildi gjarnan bæta við hjá honum. Sendi þér mynd ef þú vilt, af steininum og fuglinum, er einhvern veginn ekki tilbúin að deila þessu með öllum ennþá
Kveðja Marta
Marta smarta, 18.2.2008 kl. 16:52
Elsku besta Ragga mín, segi eins og Hrönn, þú gætir verið að lýsa mínum dreng. Fæ verk í brjóstið. Minn slapp fyrir horn og er nú á réttu róli, guð einn veit hversu marga góða daga maður fær með sínum, en svona er lífið, maður veit aldrei fyrr en allt í einu. Ég kveiki áfram á kertum fyrir yndislega Himma þinn, ég finn alveg á mér þegar þú skrifar um hann, hvað það hefur verið auðvelt að elska hann.
Ásdís Sigurðardóttir, 18.2.2008 kl. 17:09
Elsku Ragnheiður...
Hann Hilmar þinn minnir mig á Hauk... sem tók mikið pláss í tilverunni og skyldi þess vegna eftir sig mikið tóm....
Langar að segja svo margt en finn ekki réttu orðin....
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 18.2.2008 kl. 17:32
Ég vildi að ég gæti sagt eitthvað, en ég er orðlaus. En þú ert heppin að eiga góðar minningar um góðan dreng.
Hugsa til þín á morgun, eins og alltaf.
Sigrún Óskars, 18.2.2008 kl. 18:32
Mikið ofboðslega finn ég mikið til með þér. Ég efast ekki eitt augnablik um að þú sért að ganga í gegnu það allra erfiðasta sem nokkur maður getur hugsað sér, og að síðustu mánuðir hafi verið algjört helvíti fyrir þig og fjölskyldu ykkar.
Erfið og óalandi börn eru samt sem áður yndislegu börnin okkar og við elskum þau meira en lífið sjálft.
Farðu varlega og vel með þig. Og þakka þér fyrir að opna þig og tjá þig hér um svona viðkvæm mál. Ég dáist að þér og sendi þér mína hlýjusut hugsanir.
Hulla Dan, 18.2.2008 kl. 18:55
Ragnheiður mín. Ég er að hlaupa út, en varð að setja smá komment hjá þér fyrst. Það tekur langan tíma að vinna úr þessu og þú manst að þú ert ekki ein. Verð með þér í huganum vinkonan mín.
Anna Einarsdóttir, 18.2.2008 kl. 19:15
knús ...
Inda (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 19:37
ókunnug..... (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 19:40
Elsku Ragga min mig skortir orð, veit ekki hvað ég á að segja en langar að segja svo margt, langar að finna eitthvað sem léttir þér sorgina og þann sársauka sem þú ert að ganga í gegnum eina sem mér finnst ég geta sagt er knús sæta og ef það er eitthvað sem ég get gert, bara hvenær sem er máttu alltaf tala við mig:)
Kv.Benna
Benna, 18.2.2008 kl. 19:44
Elsku Ragnheiður mín ég vildi að ég gæti gert eitthvað fyrir þig það er svo sárt að missa barnið sitt Guð hjálpi þér og þínum og blessuð sé minning hans Stórt faðmlag til þín elskan mín.
Kristín Katla Árnadóttir, 18.2.2008 kl. 19:53
Æi mamma þetta er svo erfiður tími. Sakna hans svo rosalega mikið.
Vertu afram svona sterk elsku mamma. Þú ert sönn hetja
. Love you
Solla, 18.2.2008 kl. 19:59
Æ elsku Ragga mín. Ég sit hér og græt þegar ég les þetta blogg. Hvað get ég sagt við móður sem hefur misst barnið sitt svona.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 18.2.2008 kl. 20:30
Ég vildi óska þess Ragga mín að ég gæti sagt eða gert eitthvað en mig hreinlega skortir orð. Eina sem ég get gert er að hugsa fallega til þín og senda þér ljós og hlýju. Knús og kossar til þín

Huld S. Ringsted, 18.2.2008 kl. 20:40
Guðrún B. (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 20:54
Æ, mín kæra Ragga. Vildi svo óska að ég gæti sagt eða gert eitthvað sem linaði sorgina ykkar
Mun hugsa vel þín á morgunn.
Knús og klús
Kidda (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 20:57
Knus og klemme.


Hugsa til ykkar.
Söngfuglinn, 18.2.2008 kl. 22:13
Hvað getur maður sagt? Ég get ekki sagt að ég viti hvað þú ert að ganga í gegnum. Ég get ekki sagt að ég skilji hvernig þér líður. Ég get ekki sagt að sársaukinn muni hverfa. En ég get sagt þér að ég bið oft fyrir þér og ég veit að sársaukinn verður bærilegri ... einhverntíma. Það er ekki tímabært ennþá .. það er svo stutt um liðið. Skrifaðu þig frá sorginni. Gefðu þér 5 mínútur á hverjum degi til að gráta. Það má gráta, en bara ekki of lengi. Hjartasárið nærist á tárunum, en grær við bros og hugsun um góða minningu.
Góða nótt, ljósálfur.
Hugarfluga, 18.2.2008 kl. 22:32
Ég sendi stórt knús til þín.
Mummi Guð, 18.2.2008 kl. 22:37
Ég setti kertaljós til ykkar í kvöld elsku Ragnheiður mín. Ég gleymi aldrei þegar foraldra mínir misstu son sinn sem var 9 ára gamall úr veiki því að læknirinn kom og sagið að honum mundi batna en þá dó hann í fangi föður míns. Ég átti bara eina systur sem er 9 ára eldri en ég en sem betur fer var ég ekki fædd þá en þau töluðum um mikið um hann elsku bróðir minn við systur voru ekki nógu góðar fyrir mömmu okkar hann var alltaf svo góður enda fengum við að gjalda fyrir það því miður. Knús og kossar elskan mín.
Kristín Katla Árnadóttir, 18.2.2008 kl. 23:15
Elsku Ragga mín. Við Einar sendum þér hlýjar hugsanir.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.2.2008 kl. 00:12
Er hjá þér í huganum í dag
Knús og klús
Kidda (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 12:14
Knús til þín
Anna Gísladóttir, 19.2.2008 kl. 12:25
Dísa (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 13:37
knús!
Steinunn Ósk Steinarsdóttir, 19.2.2008 kl. 13:42
Rut Rúnarsdóttir, 19.2.2008 kl. 14:09
Bjarndís Helena Mitchell, 19.2.2008 kl. 14:13
Elsku Ragga mín
Það sem kom fram í færslunni þinni um það sem þú og Solla voruð að tala um,að halda að þetta væri best fyrir alla,þetta er nákvæmlega sú hugsun sem er til staðar hjá manni þegar að þetta myrkur er yfir,ég efast ekki um það að ef að elsku Himminn þinn hefði gert sér í hugarlund þá óbærilegu sorg sem kom útúr þessari ákvörðun,hefði hann tekið aðra ákvörðun.Ég hugsa til þín Ragga mín 
Katrín Ósk Adamsdóttir, 19.2.2008 kl. 16:43
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 17:15
...en hann var strákurinn minn og ég missti aldrei vonina....
Hvað getur maður sagt? Þetta er eitthvað sem maður getur ekki ímyndað sér. En minningarnar eru góðar og fallegar..þar ræður maður ferðinni...maður getur sett til hliðar það slæma en sett á forsíðuna það besta og dýrmætasta....
Kærleikskveðjur
Rúna Guðfinnsdóttir, 19.2.2008 kl. 18:40
Signý, 19.2.2008 kl. 19:43
Góðu minningarnar eru það sem máli skiptir.


Marta B Helgadóttir, 21.2.2008 kl. 00:06
Heiður Helgadóttir, 21.2.2008 kl. 00:11
Það er engin óalandi, bara sumir taka rangar ákvarðanir sem eiga eftir að hafa áhrif á líf þeirra það sem eftir er. Það gerir þá ekkert betri eða verri en hinir sem fóru "réttu" leiðina. Það hlýtur að vera sárt að missa son sinn. Ég samhryggist þér innilega.
Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 21.2.2008 kl. 14:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.