Föstudagur, 28. desember 2007
Engill með samviskubit
Hafið þið séð svoleiðis engil ?
Ekki ég en ég geri ráð fyrir að þannig engill sé nokkuð sorglegur. Vísast leikur hann bara sorgleg lög á hörpuna sína, með társtokknar kinnar og vængirnir drúpa af sorg. Hilmar minn á ekki að vera svoleiðis engill. Hann á að vera fallegur og glaður engill eins og hann var í jarðlífinu. Hann brosti endalaust og var alltaf glaður. Þegar ég var komin upp í rúm í gærkvöldi þá sá ég fyrir mér Himma skellihlæjandi, einhver gömul prakkaraminning. Ég lá í myrkrinu og brosti sjálf svo mig verkjaði í kinnarnar. Ég var glöð innan í mér og það var gott.
Ég hef farið upp og niður tröppur síðan Hilmar dó. Það var ekki fyrr en mér tókst að beita smárökhugsun að ég fann leiðina sem ég ætla mér að feta í minningu hans. Sorgina ætla ég að geyma innra með mér og sjá hvort hún dofnar ekki. Minninguna um góðan strák ætla ég að eiga alltaf og henni ætla ég að halda á lofti. Ég neita að láta þetta brjóta mig, ég harðneita að gera það. Það munaði minnstu samt í kringum afmælið hans. Þá festist ég í vonlausum vítahring og svaf ekki. Það lagaðist en ég hef samt ekki klárað svefntöflurnar sem ég fékk. Ég vil ekki sofa með hjálp meðala né deyfa hugann með slíku.
Sé það svo að Himmi minn sjái til mín þá vil ég að hann sjái mömmu sína sem saknar hans, hann á ekki að sjá bugaða móður. Hann á ekki að fá samviskubit yfir því að hafa valdið mér slíkri sorg. Það á hann ekki skilið af móður sinni. Geti hann séð þá vona ég að hann sjái líka að fjölskyldurnar tvær hafa náð vel saman. Heiður sendi mér mynd af börnunum, litlu systkinum Himma, það þótti mér reglulega vænt um.
Oft hafa þessar fjölskyldur verið á öndverðum meiði eins og oft er eftir skilnað. Samskiptin oft föst í einhverri kergju . Það var ekkert frekar þeim að kenna en mér. Nú þegar ég lít til baka þá þakka ég Guði fyrir Heiði. Hún var frekar ung þegar hún tók upp samband við Gísla sem nú hefur varað í ansi mörg ár. Mínir strákar voru litlir og alla tíð hefur hún tekið þeim afskaplega vel. Fyrir það er ég þakklát. Í dag er ég þakklát og ekki minna gleður mig að þeir tveir synir mínir sem eftir lifa eru elskir að Heiði og þykir reglulega vænt um hana. Mín ósk er sú að samskiptin verði ekki minni á árinu 2008. Ég gleðst þegar krakkarnir koma og vil endilega fá að fylgjast með uppvexti þeirra. Heiður tók ekki að sér lítið verkefni þegar mínir gormar voru þar um helgar, uppátækjasamir með afbrigðum og miklir gormar. Ekki var það minna þegar þau tóku alveg við uppeldi Hilmars þegar hann var 9 ára. Allt þetta leysti hún og Gísli með miklum sóma.Þau gerðu allt sem hægt var til að teyma Himma rétta leið en hann fór sínu fram. Ef allar stjúpmæður tækju börnum manna sinna svona eins og Heiður gerði þá væri margt öðruvísi á mörgum heimilum. Þessar samtíningsfjölskyldur eru að verða algengari en nokkuð annað form sambúðar. Pör koma bæði með börn inn í sambúðir og eignast svo kannski saman fleiri. Það þarf að gæta að jafnræði á heimilinu og það getur verið nokkuð púsl.
Það sem fer mest í taugarnar á mér er þegar fólk lætur biturð bitna á börnum. Börn eru börn og eiga að fá að vera það í friði. Sár á sál barns getur haft alvarlegar afleiðingar og ágætt er að hafa í huga að börn verða ekki alltaf börn. Vond framkoma við börn getur skilað sér árum seinna.
Ég mun halda uppteknum hætti og horfa frekar til þeirra sem snerta hjarta mitt og ég vil beina sjónum fólks að. Það er bara ég. Ég get ekki sett sjálfa mig í einhvern forgang. Mér líður oft sjálfri betur þegar ég sit og hugleiði stöðu annarra. Eða sko kannski ekki betur ...æj vont að finna réttu orðin. Ég vil fá að benda á þá sem mér finnst þurfa þess með...mér sárnaði nokkuð að lesa ábendingar um að hugsa um sjálfa mig og beina orkunni þangað. Það er ekki ég. Ég þarf að setja inn linka á síðurnar hérna til hliðar....ég er enn bara með Kára ofurstrák þar. Þar eiga sko fleiri að vera.
Klús á línuna og sorry hvað þetta varð langur pistill. Mæli með smákökum og mjólk við lesturinn.
Athugasemdir
Jæja Ragga mín, það var nú of seint sem ráðleggingin mjölkurglasið og smákökurnar birtist, ég var búin að lesa, alveg mjölkurlaus
Þetta er alveg einstakur pistill hjá þér, veit að hann er sannur, gerir öllum gott að lesa hann.
guð veri með þér nú og ætið vinan
Guðrún Jóhannesdóttir, 28.12.2007 kl. 00:27
Góð færsla Ragga mín og góð ákvörðun sem þú ert að taka. Ég tek undir með þér að það væri betra ef fullorðið fólk hagaði sér vel þegar skilnaðir verða og börn lenda í milli. Ljótasta sem hægt er að gera er að nota börnin sem bitbein. Ég hef sem betur fer verið að mestu laus við þá erfiðleika. Gangi þér vel á nýju ári mín kæra. Kær kveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 28.12.2007 kl. 00:28
Pistlarnir þínir eru aldrei of langir.... því þeir eru alltaf áhugaverðir og oftar en ekki skemmtilegir molar sem maður finnur í þeim. Núna fannst mér t.d. mjög fyndið að þú segir lesendum að fá sér mjólk og smákökur við lesturinn...... en þú segir það í síðustu setningunni prakkarinn þinn.
Anna Einarsdóttir, 28.12.2007 kl. 00:36
hehehe það var viljandi, allir löngu búnir að éta of mikið
Ragnheiður , 28.12.2007 kl. 00:38
Hefði mátt vera tíu sinnum lengri, & ég hefði lesið hann mjólkurlaust til enda.
Máske reyndar dýft einni smáköku niður í kaffikönnuna á milli lesturs míns á milli blaðsíðu 7-8, en ég er líka með laktósafælni & drekk því ekki mjólk.
Það sem að þú skrifar hérna er eiginlega óskrifuð kennslubók í því hvernig foreldri ætti að reyna að haga sér í þeirri ófyrirséðu sorg sem að enginn okkar hinna vill lenda nokkurn tíman í.
Og þú ritar hana verulega vel, þannig að meira að segja apar eins & ég skilja hvað þú ert að meina, þú gefur allt uppi á borðið, leggur allt fram hreint skýrt & klárt.
Það eru bara klár forréttindi að fá að vera í þínum bloggvinahópi.
Steingrímur Helgason, 28.12.2007 kl. 01:21
þakka þér fyrir Steingrímur, mér hlýnar um hjartarætur. Í fullkomnum heimi myndu foreldrar ekki missa börnin sín, það gerist og það verður að finna leið með byrðina.
Ragnheiður , 28.12.2007 kl. 01:49
soldið spes.
lotus (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 03:54
Þessi pistill yljaði mér að innan. Það mættu fleiri vera eins og þú
Hrönn Sigurðardóttir, 28.12.2007 kl. 06:32
Ekki get ég sett mig í spor þeirra sem missa börnin sín. Tilhugsunin er óbærileg. Þó ert greinilega sterk og það sem mér finnst frábært er að þú kemur fram og opnar umræðuna um meðferð fanga og kannski dómskerfið í heild. Fólk er svo tilbúið að fordæma, en bítur eflaust í tunguna á sér þegar það sér að auðvita eru allir mannlegir og ekkert er svart/hvít, vont/gott.
Ég trúi því að þeir sem deyja á undan okkur fari á biðstað þar sem þeir bíða eftir sínu fólki. Þessi biðstaður er fallegur og góður og hefur allt það besta sem sú persóna gat tekið með sér úr þessu lífi. Tíminn þar líður öðruvísi en tíminn okkar hér, þannig að einn líftími hér er eins og kannski klukkutími þar, svo áður en hann veit verðið þið öll saman aftur.
Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 28.12.2007 kl. 09:43
Þú ert svo réttsýn og sanngjörn manneskja mín kæra vinkona. Ég hef einfalt prisipp gagnvart börnunum mínum og mun hafa áfram. Þeir sem eru börnunum mínum (og barnabörnum) góð, þeir eru vænar manneskjur í minni bók. Einfalt mál.
Þetta er pistill sem fær mann til að hugsa. Þekki tröppuganginn sjálf svo vel, hvernig tilfiningarnar geta sveiflast til og frá á meðan verið er að vinna úr sorginni. Mér sýnist þú heldur betur á réttri leið.
Mér þykir undur vænt um þig.
Jenný Anna Baldursdóttir, 28.12.2007 kl. 11:00
Takk fyrir þennan frábæra pistil elsku Ragnheiður. Við hin getum svo mikið af þér lært. Þér tekst það sem svo mörgum gengur illa, að umbreyta óbærilega erfiðri reynslu í styrk og þroska í stað þess að brotna undan henni. Það er góð gjöf að gefa Hilmari, þó að ég hafi ekki þekkt ykkur mæðgin er ég eitthvað svo viss um að það er eitthvað sem hann helst óskar mömmu sinni til handa.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 11:24
Ragga mín þú ert svo sannarlega á réttri leið, ég dáist af þér nú eins og ætíð. Smákökur voru ekki bakaðar né neitt annað á mínu heimili í ár
tekin var ákvörðun um það vegna slakra heilsu hjá mér, stóru snúllurnar mínar hafa gert þetta undanfarin ár, en bæði voru þær lengi í skólanum og svo voru þær mæðgur að fá varanlegt húsnæði á Laugum og þær þurftu að flytja.
Ragga þetta með englana: ( þú mátt halda að ég sé svolítið Æ þú veist, en það er allt í lagi) ,,Allir fá engil til að liðsinna sér
verndarengil og svipurinn á honum þíðir ekki hvernig hann er í raun og veru, heldur hvernig við mannfólkið erum, ef við biðjum um aðstoð
þegar okkur líður ekki vel fáum við hana og þá eru þeir glaðir á svipinn. þetta er eins og með okkur mennina, verðum við ekki glöð ef að einhver leitar eftir hjálp frá okkur, jú við erum glöð ef við getum hjálpað fólki.
það er svo stutt á milli okkar sem búa hérna megin við glæruna og hinumegin.
Hilmar þinn fær engla hlutverk eins og allir aðrir sem búa hinumegin við glæruna og þú léttir honum lífið þar með þeirri stefnu sem þú ert búin að marka núna, og þú mátt brosa, hlæja og mynnast góðu stundanna, því þá er hann glaður".
Hafðu það hugfast Ragga mín, hvoru megin við glæruna sem við búum
þá hefur lífið sinn tilgang.
Kærleikurinn er besta leiðaljósið.
Þú ert nú bara eins og ein af litlu stelpunum mínum,
Þannig líður mér þegar ég tala við þig.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 28.12.2007 kl. 11:48
Það er alltaf mannbætandi að lesa það sem þú skrifar, þú ert opin og jákvæð, án þess að verða nokkurn tíma væmin, nokkuð sem spéfugli eins og mér líkar vel.
Þessi pistill er alls ekkert of langur. Samt skrapp ég frá til að svara í símann, það var yngri strákurinn að spyrja um afa sinn. Sá ungi maður er ekkert of duglegur að hafa samband dags daglega, en núna þegar hann veit að afi hans, pabbi minn gamli (84 ára), er á sjúkrahúsi (til rannsóknar, síðast þegar ég vissi) og ekki vitað hvað er framundan, er hann duglegur að vera í sambandi og fylgjast með.
Varðandi samskipti eftir skilnað gæti ég ekki verið meira sammála þér. Ég reyndi að forðast að tala illa um pabba strákanna við þá, en stundum játa ég að ég varð að hemja flissið og passa að taka ekki undir með þeim ef þeir gerðu grín að honum.
Greta Björg Úlfsdóttir, 28.12.2007 kl. 17:32
Takk fyrir yndislegan e-malin frá þér. Sorgin breytist með tímanum.Það er komið eitt og hálft ár hjá mér og mikið er breitt.En söknuðurinn er og verður ávallt. Ekki eins nístandi sár.Góð ákvörðun hjá þér.Það er svo mikilvæga að eiga góða að,það skiptir öllu.Takk fyrir yndislega færslu.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 17:53
Þetta er alveg einstakur pistill hjá þér. Sérlega yndislegur og mannbætandi. Takk fyrir Ragnheiður mín og knús til þín
Margrét St Hafsteinsdóttir, 28.12.2007 kl. 21:01
þú ert ótrúlega hrein og bein í þessum pistli Ragga mín, sem er reyndar ekkert nýtt hjá þér. Ég veit hvað þú meinar með að þér líði betur þegar þú hugsar um stöðu annarra. Það er auðvitað bara eitt form af Pollýönnu, ekki satt?
Þú ert heilsteypt og sönn í hugleiðingum þínum. Það á eftir að fleyta þér yfir versta hjallann.
Jóna Á. Gísladóttir, 28.12.2007 kl. 23:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.