Föstudagur, 14. desember 2007
ef þið þolið ekki reiðar konur þá verðið þið að fara annað !
Fór upp í rúm og út úr því aftur fokvond. Mér varð á að fara að hugsa um hann Himma minn og hans aðstæður í lífinu. Og ég varð reið,öskureið. Það er alltaf verið að tala um Guð og hvað hann er góður og jarí jarí...sér eru nú hver helvítis gæðin ! Rífa af mér Hilmar. Það er alveg lágmark að hirða fólk í réttri aldursröð og þá var ég bara langt á undan honum, takk fyrir. Guð hefur ekki hlustað rass á mig hingað til og ég er farin að hugsa alvarlega um að láta hann eiga sig héðan í frá. Þetta er allt tómt helvítis rugl og kjaftæði bara !!
Nú á að fara að byggja við fyrir austan, já einmitt. Búa til eitthvað andskotans batterí sem enginn getur haft yfirsýn yfir né kontrol á. Það er snjöll hugmynd !! Miðað við þá þjónustu sálfræðinga sem þeir eru að fá núna þá er það fullkominn óþarfi. Það má alveg eins moka þessum strákum inn í gáma á hafnarbakkanum...ja svo 10 stykki í hvern og loka. Þetta á að vera betrunarvist !! Hvar er þessi betrun eiginlega ? Ég veit ekki til þess að Hilmar hafi hitt nokkurn sálfræðing þarna.....Hann hitti bara fangaverði, undirborgaða og undirmannaða eins og allar stéttir sem vinna við að sinna fólki. Ó ég sagði fólki...sorry...fangar eru víst ekki fólk. Þeir eru undan óhæfu hyski, vondum foreldrum og langbest að loka augunum fyrir tilvist þeirra. Æ já ég bara gleymdi þessu í augnablik !!
Hvernig væri svo að sortéra þá aðeins betur ? Hvað hafa bílaþjófar og sektargemlingar að gera með að vera á gangi með morðingjum og nauðgurum ? Hvað hefur það upp á sig ? Hraðnámskeið ? Heppin er ég þá að Hilmar tók ekki eftir þeim lærdóm !!
Fjandinn hafi þetta allt og þennan helvítis Guð með því drasli öllu saman.
Athugasemdir
Bjarndís Helena Mitchell, 14.12.2007 kl. 07:40
Ég er löngu hætt með þennan Guð. Hann er búinn að vera bara ömurlegur verð ég að segja. Hann er búinn að taka gott fólk frá mér
Vonandi rennur samt af þér reiðinn. Það er svo svakalega leiðinlegt og sárt að vera svona reiður.
Rut Rúnarsdóttir, 14.12.2007 kl. 08:11
Æ Ragga mín Þú hefur fullan rétt á að vera reið, og búin að missa trúna á þessum Guði sem á að vera til.Ég er svo sem ekkert sérstaklega trúuð þótt að stundum noti ég Guð orðið.Ég hef fá orð til að reyna að láta þér líða betur Þegar að bróðir minn sat inni hringdi ég í fangelsið og óskaði eftir sálfræðing til að tala við hann,það tók 5-10 daga fyrir hann að birtast í mýflugumynd,þessi sálfræðiþjónusta svokallaða er út í hött.Ég vona að það hafi aðeins birt yfir þér síðan í nótt,en eins og ég hef sagt áður að þá veit ég ekki hvar ég væri í þinni stöðu en ég veit að sorgin hlýtur að vera óbærileg og erfitt að lifa með svona kvölum.Það er svo margt annað í þínu lífi börnin þín,barnabörnin,maðurinn þinn og svo ótal margt annað til að lifa fyrir,ég get ímyndað mér að það sé erfitt að horfa fram á veginn en þú verður.Kannski geturu breytt lífi margra með þessum skrifum,en auðvita veit ég að það er bara Hilmars líf sem þú hefðir viljað breyta Ég reyndi að vanda mig við að skrifa þessar línur,ég vona að þarna sé ekkert sem kemur illa við þig elsku Ragga mín
Katrín Ósk Adamsdóttir, 14.12.2007 kl. 08:20
blessuð Ragnheiður. Mer er þetta umræðuefni heldur betur skylt. Hafandi unnið í bransanum í mörg ár tel ég mig hafa talsvert vit á og segi fullum fetum að það væru skelfileg mistök að stækka á Hrauni enn frekar. Það er EKKI það sem þetta samfélag þarfnast enn einn klefinn í hámarksöryggisfangelsi. Við þurfum opnari úrræði og alvöru meðferðar og þjónustupláss. Þegar LH starfsfólk fór af stað í haust með áróður um að loka öllu í bænum og flytja austur saup ég og fleiri hveljur. Þeir geta ekki sinnt lágmarksþjónustu þar nú þegar. Lausnin er ekki að stækka hraunið og vanrækja fleiri fanga. Besti árangur að betrun næst fram með heimilislegu umhverfi og manneskjulegri og faglegri umönnun og uppbyggingu þessara krakka. Evrópunefnd (Torture nefndin) sem ferðast um álfuna og skoðar og metur fangelsi hefur ítrekað gefið litlu fangelsunum á Íslandi mun hærri einkunn þegar kemur að umönnun og samskiptum við fanga heldur en á LH þar sem menn eru ekki skráðir með nafni heldur númeri og enginn sérstakur metnaður er að efla tengsl fangavarða við fanga.
Fangelsismálastofnun hefur lagt fram markmiðaáætlun og framkvæmdaáætlun varðandi frekari uppbyggingu fangelsisgeirans og það er flott framtíðarsýn. Ekki byggð á eiginhagsmunapoti og hreppapólítík eins og starfsfólk LH lagði til málanna. En maður hefur svo sem samúð með þeim þarna fyrir austan enda ekki um margt að velja atvinnulega á svona stað sem Eyrarbakki er.
Hvet fólk til að kynna sér þessa lokuðu veröld sem fangelsin eru. Þarna vistast fólk, ekki gleyma því að fólkið kemur aftur til baka út í samfélagið.
Og Ragga guð er víst til.
Bjarnþóra María Pálsdóttir, 14.12.2007 kl. 08:56
Æi hvað þú ert reið núna elsku Ragnheiður mín það er erfitt hjá þér ég vildi að ég gæti hjálpa þér.
Kristín Katla Árnadóttir, 14.12.2007 kl. 10:07
knús
Dísa Dóra, 14.12.2007 kl. 10:48
Elsku kellan, ég veit að allt er erfitt núna, það er myrkur úti og myrkur inni í þér, en..... það birtir, trú mér til. Yljaðu þér við góðu minningarnar, leggðu hinar til hliðar þangað til seinna, það er hlutur sem hefur gefist mér vel. knúsknúsknús og kveðja úr rokinu fyrir norðan.
., 14.12.2007 kl. 11:02
Skil reiði þína vel, og er alveg sammála þér í því að það þarf að muna að fangar eru fólk sem á fjölskyldur. menn og konur sem verða fyrir þeirri ógæfu að misstíga sig eiga að fá betrun að mínu mati og það á að nota samfélagsþjónustu í ríkari mæli.
Elsku kellingin mín guð er hérna, ég veit að þér finnst hann ósangjarn og leggja of mikið á þig en ég hef trú á að hann ætli þér mikið og að þú getir lagt á vogaskálarnar til samfélagsins bót fyrir þennan hóp. Þín reynsla er dýrmæt og nú þegar hefur þú staðið upp og fengið samfélagið til að sjá fanga sem menn,
Knús
Kristín Snorradóttir, 14.12.2007 kl. 11:04
Er hjartanlega sammála þér með fangamálin Ragga mín, þeir koma margir mun forhertari út heldur en þeir voru þegar þeir fóru inn. Skil vel að þú skulir vera reið, maður er svo vanmáttugur í svona aðstæðum. Fangar þurfa miklu meiri aðstoð en þá sem í boði er, segi eins og Bjarnþóra þeir koma aftur út í samfélagið.
Bestu kveðjur
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 14.12.2007 kl. 11:09
Elsku Ragnheiður mín, hér er svar sem ég birti á síðunni hennar Margrétar; það á vel við hér líka.
Ég er sammála því að aðbúnaður fanga þarf að vera viðunandi. Það er hræðilegt að vita að til dæmis hafa verið sömu dýnur í kvennafangelsinu í Kópavogi frá upphafi þess, og margir bakveikir og slæmir í liðum vegna lélegra dýna. Árni Johnsen á heiður skilið fyrir að taka eftir því og bæta úr af myndarskap. Menn verða að eiga það sem þeir eiga.
En hvað varðar annan aðbúnað, þá þekkti ég á sínum tíma til á Litla Hrauni, og það er svakalegt að fá fíkil út úr fangelsi uppfullan af hatri eftir niðurlægjandi meðferð í fangelsi. Þar sem enginn virðing var borinn fyrir föngunum. Vonandi hefur það lagast. En það er mín skoðun að fíklar eigi ekkert erindi inn í fangelsi, heldur lokaða meðferðarstofnun, þar sem hlúð er að þeim, og þeim hjálpað til að takast á við fíknina, sem undantekningarlaust er orsök fyrir glæpunum sem þeir fremja.
Hvað varðar að setja morðingja upp á Kvíabryggju, þá er ég dálítið skeftisk á það. Þetta var ekki eitthvað ástríðumorð heldur skipulagt kaldrifjað morð, meira að segja tók hann þátt í leitinni að fórnarlambi sínu. Svona svipað og maðurinn sem myrti ástkonu sína. Mér finnst að það eigi að velja vel þá fanga sem færast upp til Kvíabryggju, líka vegna þess að um leið og morðingja er umbunað svona, þá eru það ákveðin skilaboð út í samfélagið að brotið sé ekki mjög alvarlegt. Og það er greinilegt að það hefur sært ættingja fórnarlambsins, ætli þeir hafi ekki liðið nóg.
Menn verða að horfast í augu við sínar gjörðir. Ég held að yfirvöld þurfi að fara að endurskipuleggja allt ferli í fangelsismálum, líka forgang þeirra í fíkniefnamálum og hvað skilar betri árangri í baráttunni gegn þeirri vá. Það er svo margt sem betur má fara.
Mér finnst bara fínt að menn hafi sæmilegan aðbúnað í fangelsum. Þeir eiga rétt á því, og einnig að þeir séu meðhöndlaðir sem manneskjur en ekki dýr.
Við eigum að mínu mati að leggja meiri áherslu á endurhæfingu og þjálfun í að koma mönnum út í lífið á ný, sem betri menn. Það skilar sér út í allt þjóðfélagið. Því það virðist vera að menn fari inn aftur og aftur, eilíf hringrás, sem þýðir ekki endilega að þetta séu verri menn en aðrir, heldur menn sem misst hafa fótanna, og er bráðnauðsynlegt að hjálpa þeim að ná sér á strik aftur í stað þess að halda þeim stöðugt niðri með allskyns niðurlægjandi aðferðum.
Það þarf að skoða þessi mál vel, rannsaka hvað áunnist hefur, og hvað sé til úrbóta, einnig þarf að setja menn í viðtöl við sérfræðinga til að finna út hvert vandamál þeirra er, af hverju þeir fóru þessa braut, og hvað má betur fara til að koma þeim á réttan kjöl aftur. Hver og einn af þeim sem snýr til baka til venjulegs lífs sparar þjóðfélaginu mikla peninga. Mál sem þarf að skoða í því ljósi. En ekki bara líta á menn sem óleysanlegt vandamál. Það er hægt að gera svo miklu miklu betur.
Þúsund knúsar til þín mín kæra.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.12.2007 kl. 11:14
Æ stundum er bara gott að vera reiður og pústa svolítið út. Það oftast nær hreinsar andrúmsloftið og gerir gott. Ég skil þig svo fullkomlega, og ég held að Guð fyrirgefi þér alveg þó að þú reiðist honum. Ég held nefnilega að Guð sé orð yfir hið góða í manninum sjálfum. Ég hef aldrei getað séð hann fyrir mér sem gamlann kall með hvítt skegg, heldur orku sem myndast í góðu flæði, og samkennd og samhug. Þannig vill ég sjá hann, og það hjálpar mér oft.
Dagarnir mínir 7 hafa ekki alltaf verið sælir get ég sagt þér, og yfirleitt þegar ílla gengur eða ég er ílla fyrirkölluð þá reiðist ég þessu afli óskaplega. Og það er oftast bara gott að geta skeitt skapi sínu á einhverju. Betra það en kallinn segi ég stundum.
Vona bara að þér líði betur elskan mín, og ég veit að þú ert líka lasin og það hjálpar alls ekki.
Mér þykir óskaplega vænt um þig og sendi þér risastórt knús.
Guðrún B. (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 12:29
Elsku Ragga, ég skil þig vel, þetta er bara óréttlátt. Knús og þúsund kossar
Jenný Anna Baldursdóttir, 14.12.2007 kl. 14:11
knús!
Steinunn Ósk Steinarsdóttir, 14.12.2007 kl. 14:13
Ég tek undir með henni Ásthildi, en svo máttu alveg vera reið og vertu bara öskureið gargaðu,grenjaðu og farðu svo að hlæja á eftir, það er alveg sama hvernig hláturinn verður hlæðu bara.þetta virkar.
Faðmur og knús á þig elsku Ragga mín.
Þín Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 14.12.2007 kl. 14:13
Æ Ragnheiður mín.
Mikið skil ég þig að vera svona reið. Það er bara verst hvað það fer illa með mann sjálfan og þá sem í kringum mann eru. Vonandi kemur birta inn í lífið þitt aftur, horfðu á litla Hilmar og sjáðu hvað hann treystir á ömmu sína, það gera hin litlu og stóru krílin þín líka.
Það er svo gott að lesa bloggið þitt og ég dáist að hvað þú ert dugleg að tjá þig.
Óska þér alls hins besta og vona að þér líði betur.
Marta smarta, 14.12.2007 kl. 16:02
Bara að senda þér smá kærleikskveðju
Kristín Snorradóttir, 14.12.2007 kl. 16:42
Það er allt í lagi að vera reið!! Bara ef þú ert það ekki alltaf.....
Ég held nú og trúi því þrjózkulega að fjöldinn líti á fanga sem fólk. Þó svo sumir líti á þá, eins og þú orðar það að þeir séu komnir af ógæfufólki og þá einna helst einstæðum mæðrum..... Meira að segja sýslumaðurinn í minni sveit ýjaði að því um daginn.
Knús á þig kæra
Hrönn Sigurðardóttir, 14.12.2007 kl. 16:57
Ef Guð er til þá myndi hann skilja reiði þína
halkatla, 14.12.2007 kl. 16:57
Þú hefur fullan rétt til að vera öskureið, elskan mín. Að búa til stærra geymslurými þarna fyrir austan er ávísun á stórslys! Algjörlega sammála þér þar. Hrokinn mætti alveg minnka í þeim sem ráða þessu, mannlegur harmleikur er á bak við svo mörg málin, margir fárveikir þarna inni og fá ekki aðstoð sálfræðinga eða geðlækna nema ganga fast eftir því sjálfir. Áhugaleysið til að hjálpa þessum mönnum að fóta sig á nýjan leik og verða að nýtum borgurum er algjört og dómharkan og fordómarnir særandi, lýsa bara vanþekkingu, jafnvel heimsku. Risaknús á þig, elsku stelpa!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 14.12.2007 kl. 17:50
Má ekki vera að því að lesa allar þessar færslur, elskurnar mínar, örugglega mörg gullkorn sem ég missi af...
Ragga mín, prestinum þótti víst færslan mín "ósmekkleg"...
Greta Björg Úlfsdóttir, 14.12.2007 kl. 18:59
*færslur=athugasemdir
Greta Björg Úlfsdóttir, 14.12.2007 kl. 19:00
...sú um að leggja líkn við þraut...hann þolir greinilega ekki reiðar konur...
Sjálfsagt fer hann annað framvegis, hann hefur í það minnsta ekki enn gert vart við að hafa lesið svarið mitt við því sem hann sagði; þó lét ég hann vita í blogginu hans, hann er þó búinn að blogga síðan.
Greta Björg Úlfsdóttir, 14.12.2007 kl. 19:04
Guðrún Jóhannesdóttir, 15.12.2007 kl. 13:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.