Miðvikudagur, 21. nóvember 2007
hugleiðing
Þú komst lítill og þú fórst stór.
Byrjunin ekki gæfuleg hjá okkur, þú lasinn en það lagaðist.
Fyrsta árið þitt voru gerðar nokkrar atlögur að þér.
Mest voru það mistök sem sneru að lyfjagjöf.
Þú hristir þetta af þér.
Þú varst alltaf glaður.
Þú brostir manna mest, alla æfina.
Fólk segir núna, þunglyndi. Það skiljum við ekki, við pabbi þinn.
Fátt er fjær raunveruleikanum.
Fangi, já. Sumt mátti setja beint á þín þroskafrávik.
Elskulegur, já. Það vissu allir sem þekktu þig.
Saknað, já. Alla æfina okkar mun okkur finnast við hafa verið snuðuð í lífinu.
Elskaður, já. Af öllu þínu fólki, heitt elskaður og það var gagnkvæmt.
Sumt fólk reyndist þér ekki vel, það þurfum við að lifa við og leysa það sem hægt er. Hitt verðum við að umbera.
Fallegastur, já. Mamma gekk um með þér, stolt af þér. Sætasti strákurinn, herðabreiður með stórar og þykkar hendur. Mamma elskaði hendurnar þínar og fallegu eyrun þín, mildu augun þín.
Stundum reiður, já. Mamma hafði lag á að róa sinn strák og þekkti takkana til að fá þig til að gleyma og fyrirgefa.
Langrækinn, nei. Aldrei...mun fljótari að gleyma en nokkur annar.
Seinna færðu betra bréf, ég veit að þú veist líklega afhverju þetta bréf er sett upp svona. Mundu, mamma þín mun elska þig alla sína æfi og hittir þig seinna með tilhlökkun í huga.
Núna eru ýmis verkefni sem bíða, við þurfum að passa Hjallann okkar og líka litla barnið sem er að hugsa um að koma í heiminn bráðum. Það mun missa af þér en mamma, Solla og allir munu segja því hversu góður strákur þú varst. Manstu hvað Sverrir litli bróðir sagði þegar hann klappaði á bringuna á sér...það var svo gott á Himma hérna. Einföld leið lítils bróður til að útskýra að hann hafði átt hjartahlýjan stóran bróður. Passaðu þau litlu systkinin og pabba og Heiði. Þú kemur úr svo stórri fjölskyldu að þú verður að vera alveg á þönum til að passa alla. Þú passaðir okkur þegar þú varst hérna, stundum hlífðir þú okkur of mikið, við hefðum þolað meira en þú vildir á okkur leggja.
Ég sakna þín en mér líður ögn betur nú en áður. Einhverntímann kemur að því að mamma þín verður til að lifa án þín en það er ekki komið enn að því. Veistu Himmi, það kemur samt seinna. Það verður ekki vegna þess að mamma sé hætt að elska þig eða búin að gleyma þér. Það verður vegna þess að öllu er afmörkuð stund. Stundin hennar mömmu er ekki komin enn en hún mun renna upp. Enn sé ég það sem gleðistund og óttast ekki. Það eru svo margir farnir. Það verður gott að hitta alla.
Hér í kommenti fyrir neðan erum við hvött til að hugsa hlýlega til litlu vinkonu okkar hennar Þuríðar Örnu og kveikja ljós á kertasíðunni hennar. Slóðin á kertasíðuna hennar er hérna til hliðar.
Athugasemdir
Yndislegt, yndislegt. Knús til´þín. Hugsa líka fallega til Þuríðar Örnu, litlu hetju og kveiki á kerti fyrir hana.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 21.11.2007 kl. 14:08
Fallegt bréf til hilmars frá þér...þú ert svo góð kona ragga mín
þú hafur alltaf verið góð við alla og það kunna allir svo vel við þig
Hafðu það gott í dag..
Aníta selma ólafsdóttir (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 14:11
Aníta mín mesta krúttið í heiminum. Með fólk eins og ykkur í kringum sig þá getur maður bara verið þakklátur.
Takk Gurrí mín.
Ragnheiður , 21.11.2007 kl. 14:13
Fallegur pistill frá einstakri konu...þú kennir mér alltaf eitthvað á hverjum degi.
Ætla að skutla mér inní barnaherbergið mitt og segja börnunum mínum hvað ég elska þau óendalega mikið!
Takk einstaka kona!
4 barna mamman (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 14:24
Nú komu tár hjá mér en það er bara af söknuði.
Fallegt bréf til elsku fallega Himma okkar sem var og er elskaður af okkur öllum og líka litlu syskinum hans sem sakna svo miki.
En eitt held ég að hann passar okkur öll þó við finnum ekki öll fyrir honum....
Kveðja til ykkar allar Heiður.
Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 21.11.2007 kl. 15:11
Elísabet Sóley Stefánsdóttir, 21.11.2007 kl. 16:49
Falleg bréf,manni vöknar bara um augu.
Magnús Paul Korntop, 21.11.2007 kl. 16:50
Nú fór ég að grenja, en hvað, það er í góðu. Afskaplega falleg ritsmíð hjá þér Ragga og svo grípandi. Þú átt alla mína aðdáun.
Knús og kossar
Jenný Anna Baldursdóttir, 21.11.2007 kl. 17:41
Yndisleg færsla.Það grenjuðu fleiri en Jenný
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 17:48
Yndislega falleg skrif hjá þér Ragnheiður, þau greinilega koma frá þínum innstu hjartans rótum og snerta við mér og öðrum sem lesa, takk fyrir að deila þessu.
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 21.11.2007 kl. 17:53
Yndislegt bréf, ég held að við fáum öll tárin í augun við lesturinn
Ég er búin að kveikja á kerti fyrir Þuríði og hugsa fallega til hennar.
Huld S. Ringsted, 21.11.2007 kl. 18:35
fallegt,fallegt,skil þetta svo vel kveðja fangamamma
ingileif Finnbogadóttir (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 19:58
Þetta eru falleg orð til drengsins þíns
Katrín Ósk Adamsdóttir, 21.11.2007 kl. 21:50
Æji já nú fór ég líka að gráta, guð minn góður hvað ég finn til í hjartanu þegar ég hugsa til þín kæra Ragnheiður, og ég veit að það gerir sonur minn líka (hugsar til þín) því að þó þeir strákarnir okkar hafi gert einhverja skandala í gegnum tíðina, þá eru þeir nú alltaf svo miklir mömmustrákar :) yndislega fallegi Himmi þinn er örugglega í mömmu örmum alla daga. kær kveðja Sigga.
mamma (fanga á litla hrauni) (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 22:11
Falleg orð frá fallegri konu. Knús Ragga mín. Þú ert sko ekki af baki dottin.
Jóna Á. Gísladóttir, 22.11.2007 kl. 15:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.