Kylfa óskast !

Mér tekst ekki að sofa eins og sést á tímanum á þessari færslu.

Gærdagurinn varð verri en allt slæmt ! Ég sat lungann úr deginum ráðalaus með sjálfa mig og hafði mig ekki til neins. Björn rak mig svo af stað um kvöldmat upp í garð og þar hittum við Sollu og Jón. Við kveiktum á kerti en stoppuðum ekki lengi hjá Himma, skítkalt og svartamyrkur í stíl við mig sjálfa.

Þau komu svo með okkur hingað heim og ég eldaði kjúklingabringur. Þær voru ágætar. Svo héngu þau greyin hér frameftir öllu, vildu ekki skilja mig eftir eina heima. Björn ætlaði með þeim suðureftir og gerði það svo fyrir rest. Ég sat bara áfram hér í hlutlausum gír þar til Steinar kom loksins heim um klukkan 1. Hann var að vinna -allan daginn í gær. Núna steinsefur hann greyið og fattar sem betur fer ekki að hann er einn þarna inni.

Snemma morguns á afmælisdegi Hilmars sofnaði lítill strákur inn í eilífðarljósið. Föður hans þekkti ég í gamla daga, hann bjó beint á móti mér þegar ég var krakki. Hann er talsvert yngri en ég. Ég bað Hilmar sérstaklega um að passa þennan litla gutta þegar ég fór að gröf Hilmars. Blessað barnið og vesalings vesalings foreldrar hans. Barnið er laust frá sínum þrautum og veikindum en sporin þungu foreldranna þekki ég orðið of vel. Megi Guð veita þeim styrk.

Góð kona kom til hennar Heiðar með mynd af Himma síðan hann var í unglingavinnunni. Hún hafði lesið hérna á síðunni minni og vildi að myndin kæmist til fjölskyldu hans. Fyrir það er ég þakklát og búin að vista myndina á tölvunni minni en hana má sjá Heiðar megin (www.snar.blog.is )

Eins er ég þakklát ykkur sem settuð ykkar mark á vonda daginn og skilduð eftir hughreystingu og góðar óskir. Ég syrgi ekki að hafa átt Hilmar, ég syrgi tapaða framtíð og alla möguleikana hans sem hann átti ónýtta. Hann var strákurinn minn, heimsins bestur og blíðastur.

Jónu tókst samt að láta mig brosa í gær. Þessi elska...Hún brasaði nánast í því í allt gærkvöld að setja inn 22 ljós fyrir Himma. Eitt fyrir hvert ár. Jóna er ein þeirra sem gefur mér svo mikið í þessum bloggheimi. Þegar hún segir frá Þeim Einhverfa þá les ég og ég næ að skilja þrátt fyrir takmarkaða þekkingu á einhverfu. Þetta er eitt af því sem gerir bloggið hérna svo skemmtilegt, hér finnur maður allt mögulegt og lærir á allt mögulegt.

Ég hef líka afar gaman af tveimur systrum sem hafa verið að læra stafina, mér þótti ekki verra að sjá mömmu þeirra í útsvari í kvöld þó að athyglin væri óvart um víðan völl. Þegar ég sé á forsíðunni stafapistil þá rýk ég inn að lesa. Mér finnst svo gaman að lesa hvaða myndir telpur tvær teikna í kringum hvern staf.

Jenný mín er sífelld uppspretta gleði og er ég þó alls ekki sammála öllu sem hún skrifar. Sérlega lendum við á sitthvorri blaðsíðunni þegar hún er á dómaravaktinni en það er allt í lagi, ég les samt og meira að segja skamma hana ekki neitt þó ég sé ósammála. Hún hefur rétt á sinni skoðun og setur skoðanir sínar svo skemmtilega fram að það er ekkert hægt að fara í móðgunargírinn. Hún er ein fárra sem ég þekki í raunveruleikanum og það hef ég gert lengi.

Ég get skrifað svona pistil um flesta bloggvinina enda reyni ég að renna yfir hjá þeim daglega flestum. Í gær bættist við hann Valgeir sem fjallar um sína erfiðleika af mikilli hreinskilni. Hann er of þungur og vill fá úrbætur í kringum þann málaflokk og þar er ég sammála honum.

Milla mín er oft með svo skemmtilegar sögur og brandara að það er nauðsynlegt að skjótast inn til hennar áður en haldið er í háttinn.

Jórunn fær barnabörnin í heimsókn og hefur umsjón með móður sinni sem er á heimili hér í borg, mér finnst ég finna lyktina úr rúmfatnaðinum hjá ömmu minni þegar ég les síðuna hennar. Ég fæ svona notalega ömmutilfinningu. Nýlega bloggaði hún myndarlega um ferð sem hún var að koma úr og birti myndir. Það var gaman að sjá þetta allt enda á ég eftir að komast til útlanda, það hef ég aldrei gert.

Hérna hjá mér eru líka nánir fjölskyldumeðlimir.

Mæður sem eiga börn sem eru eða hafa verið í vanda.

Þórdísi Tinnu okkar þekkja allir, duglegu hetjuna okkar með músina sína.

Gillí er horfin okkur í bili en Anna frænka hennar er hérna enn. Hún skrifar skemmtilega um liðna tíð, skák og stundum tattoo. Stundum í gátum og stundum í vísum.

Ég er að horfa á einhverja leim ass bíómynd um sveitalöggu sem fann dauðan kall í runna,datt aftur fyrir sig og skaut upp í loftið...í boði Hallmark. Mér sýnist að bæli og bók líti betur út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Snorradóttir

Langaði bara að segja þér að þú gefur mér mikin styrk með skrifum þínum því þú ert ótrúlega mikil hetja.

Megirðu eiga góðan dag í dag.

Kristín Snorradóttir, 17.11.2007 kl. 08:27

2 Smámynd: Dísa Dóra

knús á þig.

Eitt einfalt ráð var mér gefið fyrir nokkrum árum þegar ég átti erfitt með svefn löng tímabil og reyndist mér þetta ráð bara mjög vel.  Það er að fá þér ilmolíu með lavender og láta eins og 3-5 dropa í koddann þinn.  Virkar mjög róandi og slakandi og hjálpar manni að sofa betur. 

Dísa Dóra, 17.11.2007 kl. 09:42

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú ert falleg manneskja Ragga mín, og þú hefur þann einstaka hæfileika að koma upplifunum þínum frá þér, þannig að það skiljist og það er ekki sjálfgefið.  Ég er búin að hugsa stíft til þín undanfarin sólahring ásamt fjöldanum öllum að fólki, úr þessum heimi og öðrum.  Nú vona ég að þér hafi tekist að sofna vært og rótt elskan, eftir skrif þessarar færslu og að þú sofir enn.  Knús á þig kæra vinkona

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.11.2007 kl. 09:48

4 Smámynd: kidda

Æj, það er slæmt að geta ekki sofið, sjálf var ég vakandi alla vega til 3.47 og eitthvað eftir það. Hefði átt að fara upp og ath hvort þú værir á msninu.

Óskaði þess svo innilega að dagurinn yrði ekki jafn erfiður og þú áttir von á

Vona að þú hafir náð að hvíla þig og dagurinn í dag verði skárri en gærdagurinn

Knús og klús

kidda, 17.11.2007 kl. 12:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband