Fimmtudagur, 15. nóvember 2007
Vandræðaástand
á konunni. Afmælisdagurinn hans er alveg að renna upp og ég er hálfsturluð innra með mér...heltekin af söknuði,kvíða og reiði. Það er slagveður og barnið mitt er þarna úti í dimmunni, bleytunni og rokinu.....
Ég hef reynt allt til að dreifa huganum og las hvert komment hjá Heiðu í sjóðheitum trúarumræðum. Ég varð eiginlega bara sorgmæddari við að lesa hvern skilning ofsatrúarmenn hafa á Biblíunni. Við höfum ekki efni á að setja okkar minnstu bræður í hendurnar á einhverju og einhverjum. Það þarf að styðja betur við þá sem eru að reyna að hafa betur í fíknisjúkdómum, föngum sem eru að reyna að fóta sig eftir afplánun. Ef þessir aðilar fá betri stuðning þá eru meiri líkur á að þeir nái að spjara sig í lífinu. Það er hagur okkar allra, fíkill í neyslu og fangi á villigötum eru dýrir samfélaginu. Í þessu nýríka þjóðfélagi okkar þá er allt sortérað eftir arðsemi, fangar og fíklar eru líklega ekki ofarlega á þeim lista. Þeir ættu að vera ofar vegna þess að á bakvið hvern og einn er heil fjölskylda sem þjáist í þögn og ótta. Og þá með tilheyrandi vandræðum allra, veikindadögum og almennri vanlíðan.
Ég get ekki sagt hversu oft ég hef setið í vinnunni og sett upp falska gleðiandlitið en blætt innra með mér af áhyggjum af drengjunum mínum. Ég hef náð að halda vinnunni minni utan við þetta. Það hefur samt kostað blóð svita og tár. Margir vissu samt um ástand mála enda ég búin að vinna þarna í áraraðir.
Í kvöld átti ég í fyrsta sinn verulega erfitt með að vera á vaktinni , augun fylltust af tárum og ég náði ekki að hrista þetta almennilega af mér.
Fyrst mér líður svona núna með afmælið hans þá veit ég ekki hvernig ég verð um jólin...svei mér þá !
Athugasemdir
Æi elsku stelpan, knús frá mér. Ég þekki nokkuð til þess sem þú ert að tala um og ég veit að ekkert huggar nema tíminn og óbiljandi vilji. Sendi þér góðar og hlýjar hugsanir inn í nóttina
Jenný Anna Baldursdóttir, 15.11.2007 kl. 00:48
Æi mamma ég er svo innilega sammála þér, þetta verður svo erfiður dagur. Vantar yndislega brosandi út að litlu eyrum andlitið. En við verðum bara öll að vera sterk og standa saman.
Ég veit að hann verður hjá okkur öllum og passar alla með brosið bjarta.
Solla, 15.11.2007 kl. 00:51
Þetta eru svo erfiðir dagar, fyrsta afmælið, fyrstu jólin og allur pakkinn, finn svo til með þér elskan mín og skil hvernig þér líður. Hugur minn er hjá ykkur. Kærleikskveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 15.11.2007 kl. 02:16
Fjóla Æ., 15.11.2007 kl. 08:01
knús
Dísa Dóra, 15.11.2007 kl. 08:58
æji mamma mín :( við verðum bara að halda okkur hver nálægt hvor öðru og arka öll i kór i gegnum mesta storminn gef þér knús þegar þú kemur þér frammúr
love Bear.......
Björn (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 09:07
knús til þín Ragga mín, ég man hve fyrstu jólin og fyrsti afmælisdagur frænda míns heitins voru erfiðir dagar, (hann fórst í sjóslysi og fréttina fengum foreldrar og við ættingjarnir í gegnum sjónvarpið) langar að geta sagt þér að þetta hverfi með tímanum, en því miður. "Tíminn læknar öll sár"! er því miður bara fallegt orðatiltæki, hitt er annað mál að við lærum að lifa með sorginni og söknuðinum, en við munum alltaf lenda í því að þurfa að gráta einstaklinginn á "undarlegustu" stundum
Guð styðji ykkur fjölskylduna og styrki, og mundu hann Himmi er í ljósinu
Guðrún Jóhannesdóttir, 15.11.2007 kl. 10:07
Himmi er sko ekki í dimmunni og bleytunni, hann er í ljósinu
Hann var og er engill,
Veit að dagurinn á morgunn verður erfiður hjá ykkur Sollan og Björninn eru yndisleg
En er enn að vonast eftir því að hann verði líka gleðidagur, þú veist hvað ég meina.
Knús og klús
kidda, 15.11.2007 kl. 10:40
Já, Ragga mín, nú fer erfiður tími í hönd. Jólin, fjölskyldan kemur saman og það er skarð í hópnum sem aldrei verður fyllt. Leyfðu þér að syrgja, leyfðu þér að gráta. Guð gaf okkur gleðina og hláturinn og hann gaf okku líka grátinn til að tjá tilfinningar okkar og fá útrás fyrir þá sorg og þau þyngsli sem hvíla á okkur. Þau verða að fá útrás. Það er ekki hægt að fresta sorginni eða pakka henni niður. Hún verður að hafa sinn gang. Fólk verður að sýna því skilning. Reyndu að hvíla þig þegar þú getur. Gerðu ekki neina svaka hreingerningu fyrir jólin, þreytan á eftir að sækja þig heim, meira en nokkru sinni fyrr. Leyfðu þér að hvílast. Kveiktu á fullt af kertum, hafðu falleg ljós í kringum þig. Fallega tónlist og leyfðu þér að hugsa frjálst til Himma og góðu dagana. Það kemur ljós aftur, það er bara aðeins í fjarlægð eins og er en týran skín dauft til þín og kemur til með að skína skærar með tímanum. Guð gefi þér styrk og þor þessa erfiðu daga. Vinarkveðja, Silla.
Sigurlaug B. Gröndal, 15.11.2007 kl. 10:41
Ég þekki það að setja upp falskann gleðisvip og þjást af sorg vegna drengsins míns. Ég trúi ekki að drengurinn þinn sé í dimmunni, bleytunni og rokinu. Nú líður honum vel. Ég er viss um það.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 15.11.2007 kl. 12:04
Knús frá mér.
Bjarndís Helena Mitchell, 15.11.2007 kl. 12:59
Hrönn Sigurðardóttir, 15.11.2007 kl. 19:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.