Er að hlusta

á útför Hilmars. Við tókum hana upp 4 september síðastliðinn. Mér finnst rosalega gott að hlusta á það sem Sr.Bjarni segir. Hann segir að líf Hilmars hafi ekki misheppnast. Hann er ótrúlega góður prestur. Hann talaði um Hilmar eins og hann hefði þekkt hann alla æfina hans Himma míns. Það kemur til af því að hann kynntist honum hjá okkur, eins og þið gerið hérna. Þessi drengur,góðmennskan sjálf, átti svo erfitt líf. Hann vildi vera góður og braut stundum á öðru fólki við að vera góður við sitt fólk. Hann var svo nærri því að skilja þetta þegar hann gat ekki haldið áfram lengur.

Við hérna, ég og Björn, höfum setið saman og talað um Himma. Reynt að rýna í aðstæður þessa hörmungaratburðar og við erum búin að reyna að sjá þetta frá hans sjónarhorni. Í dag, 21/2 mánuði eftir lát hans þá skiljum við og vitum. Ekkert okkar í fjölskyldu er Hilmari reitt, við skiljum. Oft sækir á mig reiði vegna þess að þetta hafi farið svona...reiði við lífið....reiði við það sem við köllum forlög.....reiði við Guð...en ekki reiði við hann Hilmar minn.

Núna segir presturinn ; Hilmar Már vildi öllum vel.

Það var rétt....og það var meðal annars hans Akkilesar hæll. Hann var líka stundum ótrúlega áhrifagjarn...

Hefði mamma vitað hvað í vændum var þá hefði mamma lokað sjálfa sig inni með sinn strák og aldrei hleypt honum út fyrir hússins dyr. Aldrei aldrei....ég hefði bara setið inni í húsi með hann.

Mér líður mun betur í dag en fyrir mánuði síðan. Þetta er að potast í rétta átt. Enn vantar þó mikið upp á að lífsgleðin sé komin á sinn stað...kannski kemur hún...kannski ekki.

Ég hef undanfarið verið að gera allskonar hluti sem ég hef ekki gert áður og ég held áfram við það. Suma daga vil ég bara vera lokuð inni og sambandslaus. Ég hef lengi ekki þolað að vera með síma...svoleiðis græjur eru bara truflandi og óþolandi. Ég veit að fólk hefur verið að hringja í mig með engum árangri...ég get eiginlega ekki beðist afsökunar á því. Símar eru verkfæri þess í neðra held ég.

Munið Himmaljósin og ljósin fyrir stúlkurnar mínar þrjár.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Elsku Ragnheiður, ég skil þetta vel með að þú viljir loka þig af suma daga - þú þarft frið til að fara í gegnum þinn "djúpa dal" , fara í gegnum erfiðar tilfinningar til þess (vonandi) að geta sæst við þær. Svo mér finnst frábært hjá þér að taka símann úr sambandi og slökkva á gemsanum þegar þú vilt hafa næði.

Varðandi það að símar séu verkfæri þess í neðra man ég eftir fyndinni senu úr mynd um Alexander Graham Bell (sem fann hann upp) þar sem hann tekur sína eigin uppfinningu og grýtir henni í gólfið eftir að hafa svarað og á hinum endanum var sölumaður að reyna að selja honum eitthvert dót!

Knús á þig, eigðu góðan dag!

Greta Björg Úlfsdóttir, 29.10.2007 kl. 15:26

2 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Elsku Ragga mín. Mikið er það gott að þetta potast í rétta átt eins og þú segir.  Ég hlusta líka á þig og nú er ég hér til að senda þér kveðju frá mér.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 29.10.2007 kl. 17:37

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Fyrirgefðu hvað ég er seint á ferð, er svona hálf lömuð úr flensu.  Elsku dúllan mín hvað mig langar að knúsa þig.  Þú skrifar svo fallega og látlaust um líðan þína, að það grípur í hjartað.  Smjúts á þig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 29.10.2007 kl. 20:02

4 identicon

Æi já svona er þetta. Það skánar samt með degi hverjum þótt maður sjái það ekki endilega.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband