Þriðjudagur, 18. september 2007
8 september 2007
8.9.2007 | 14:12
er í sjónvarpinu en að þessu sinni ekki í aðalhlutverki. Það er verið að sýna frá útför hans á ítalskri rás.Útförin fer fram í Dómkirkjunni í Modena, heimabæ hans. Það er alveg magnað að sjá þessa kirkju að innan,íburðurinn gríðarlegur og kirkjugestir taka nokkuð mikinn þátt í helgisiðunum. Maður sér glytta í nokkuð mörg stórmenni. Síðan Pavarotti lést þá hef ég verið að hlusta svolítið á hann á Youtube, bæði hann einan að syngja Nessun Dorma og svo tenórana þrjá, Pavarotti,Carreras og Domingo. Alveg magnaðir listamenn. Nú er Pavarotti farinn til himnaríkis og nú vil ég að hann syngi fyrir Himma minn, Nessun Dorma, af öllum kröftum með kveðju frá mömmu. Kistan hans er íburðarmikil og með fallegum silfurhöldum, stórri litríkri skreytingu ofan á.
Mér hefur borist styrkur víða að. Fyrirbænir fólks skila árangri, það efast ég ekki um. Bæði var haft samband við miðil og líka við nunnurnar í Hafnarfirði. Þær eru,greyin, búnar að vera á fjórum fótum í klaustrinu í nærri 3 vikur enda hefur mér ekki veitt af því. Það allra versta sem hrjáði mig í upphafi var það að mér var kennt sem krakka að ef maður fyrirfæri sér þá fengi maður ekki að koma til Himnaríkis. Tilhugsunin um minn dreng á vergangi eða á ljótum stað ætlaði að gera út af við mig. Sr.Bjarni sagði mér að þetta stæði hvergi í Biblíunni og Hilmari væri vís vist hjá Guði, Guð hefði fagnað honum eins og þeim týnda syni sem hann var. Mér létti stórlega.
Hilmar spilaði á allan tilfinningaskalann í fjölskyldunni sinni, stundum var ég reið við hann en þá kom hann oftast stökkvandi -hann þoldi sérlega illa að mamma væri reið við hann og hann vissi að fyrirgefning mömmu var alltaf vís. Bara knúsa gömluna sína og þá fyrirgaf hún,hann vissi að mamma er ekki langrækin við strákana sína. Mamma vill þeim vel og hefur áhyggjur þegar illa gengur. Oft var maður sár við hann líka, þá hafði hann gert eitthvað alveg glatað. En þegar hann dó þá var sátt við alla í fjölskyldunni nema Hjalta litla bróður hans. Þess vegna hefur þurft að halda svo utan um Hjaltann og segja honum aftur og aftur, Hilmar elskaði þig og hann var þér áreiðanlega ekki reiður þegar hann dó, alveg örugglega ekki. Hilmar var ekki langrækinn frekar en mamma hans. En vegna þess hversu blítt innræti Himmi hafði þá hentaði honum illa að vera í þessu lífi sem hann var kominn í, það kvaldi hann. Hann var þannig að hann mátti ekkert aumt sjá og hann vissi að hann olli fólki kvöl..bæði sínu fólki og fólki sem varð fyrir barðinu á honum. Oft hefur maður heyrt unga forherta snáða bölva lögreglunni í sand og ösku, það gerði Hilmar aldrei. Hann sagði mér að aðeins einusinni hefði lögreglan verið vond við hann,það var þegar hann var tekinn fyrir að aka eins og óður um allar götur í febrúar sl. " en mamma það var von,, sagði hann. ,,þeir voru orðnir dauðleiðir á að elta mig!" og svo kom ómótstæðilegt bros. Einuhverju sinni var verið að tala um matinn á Skólavörðustígnum, ég kallaði í hann og spurði hann hvort maturinn þar væri ómögulegur ? Hann horfði hissa á mig ,, nei það er allt í lagi með hann ". Þannig var Himmi, hann var jákvæður og geðgóður.
Ásta Björk minnist á orð prestins í ræðunni yfir Hilmari. Hérna kemur brot úr ræðunni ;
Í vor sagði Hilmar Már brosandi sínu blíðasta við móður
sína: Veist hvað ég gerði! Ég keypti græjur í bílinn
minn! Ég tók nótu og ég skal sýna þér hana.
Af þessu má sjá að Hilmar tók sjálfan sig mátulega hátíðlega og hann var að basla við að snúa við blaðinu. Það veit móðurhjartað fyrir víst. Það gekk bara ekki á nema eitt hátt.
-------------------------------------------------------------------------------------------------
Næsta áhyggjuefni hefur þegar druslað sér fram í dagsljósið. Hjalti ,sem átti einn 3ja mánaða dóm óafplánaðan ,fékk lögregluna í heimsókn í fyrradag. (dagur svörtu færslunnar) Í mars sl lét Hjalti eins og bjáni, hann var stelandi smáhlutum hingað og þangað og nú er komið að skuldadögunum. Hann á að mæta fyrir dóm í næstu viku. Ég hafði verið vongóð um að ná fram samfélagsþjónustu fyrir þennan 3ja mánaða dóm en nú er ég ekki bjartsýn. Eins og ég sagði við Hjalta þá mætti ekki vera eitthvað meira á leiðinni, það minnkaði svo líkurnar. Mín von er sú að vegna þess að hann hefur ekki setið inni áður þá fái hann kannski að vera á Kvíabryggju eða einhversstaðar þar sem vel fer um lítinn strák. Ég veit samt að þeir fyrir austan yrðu góðir við hann, þeir hafa svo sannarlega sýnt að í þeim býr gott hjartalag. Hann er alveg staðfastur í að hætta núna allri vitleysu og ætlar þá að ljúka afplánun með því að fara í meðferð. Hann er að vísu hættur í flestum efnunum, gengur illa að hætta í hassinu. Hjalti á líka nokkuð af umferðarsektum sem hann þarf að ganga frá. Nú er lag, Hjalli minn segir mamma sífellt. Þú verður líka að átta þig á að mamma getur ekki meira. Nú er mamma búin að missa Himma og mamma þolir ekki að missa líka Hjallann....Ég ætlast ekki til þess að synir mínir svari ekki til saka
fyrir það sem þeir gera en ég er að reyna að ætlast til þess af þeim (Hjalli einn eftir í þessarri deild) að þeir sjái að sér. Björn hefur aldrei farið eitt spor í þessa átt, hann leit alveg upp til Hilmars en fylgdi ekki í fótsporin slæmu. Sem betur fer.
Það er nokkuð rétt að yfir mér er friður. Það er friður sem mér er sendur, frá ykkur, frá öllum sem til okkar hugsa á þessum erfiðu tímamótum. Ég veit líka að drengurinn minn gengur í friði, héðan af getur enginn sært hann né meitt hann. Fái hann að kíkja aðeins á mömmu þá vil ég að hann sjái sannleikann. Mamma hans elskar hann og er ekki reið.
Nú hvet ég ykkur til að halda áfram að kvitta, það skiptir máli.
http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=Himmi
og kveikja á kertum, líka fyrir Hjalta sem þarf svo að taka sig á. Honum veitir ekki af styrk til þess
8.9.2007 | 21:22
Selfyssingar,systur og landsleikur
Hann Steinar er útnúmeraður (outnumbered) hérna í augnablikinu. Hann var nebblega ekki heima þegar fótboltinn byrjaði og við vorum að horfa á eitthvað annað - hann veit nú betur en að reka okkur Hjalla í að skipta um rás. Þar með liggur hann upp í rúmi og HLUSTAR á fótbolta.
Hjalli las færsluna um sig í dag og kom stökkvandi, ekki baun móðgaður samt yfir umfjöllun móður sinnar. Lát Hilmars hefur fengið hann til að skilja margt betur.
Ég hef þvælst um bloggheima og lesið hitt og þetta merkilegt í dag....þessi færsla hérna fannst mér ferlega fyndin og hálfeitruð...Nú þarf ég náttlega að skammast mína allaveganna til miðnættis.
Systir mín er í jeppaferð með vinnunni sinni og mér finnst það eiginlega glatað ! Hún fór til Berlínar í sumar og mér fundust þessir fimm dagar verða að eilífð. Of háð systur minni ? Gæti verið sko....
Björninn er að fara í spánnýja vinnu á eftir. Síðasti atvinnurekandi var svo almennilegur að senda Birni uppsagnarbréf að kvöldi útfarardags Hilmars...ótrúlega smart eða þannig sko .. Siggi Steinars hjálpaði litla bróður að finna aðra vinnu og það skotgekk alveg, við fórum svo í leiðangur með Björn um daginn..taka ljósmyndir, sækja skattkort og opna bankareikning..keyptum líka skó á hann. Hann átti bara gamla klossa sem áttu að vera reimaðir, reimarnar týndar og skórnir búnir. Þeim var hent með viðhöfn.
http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=Himmi
Ljósin hans Himma okkar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.