Þriðjudagur, 18. september 2007
7 september 2007
7.9.2007 | 00:03
á hverju kvöldi síðan 19 ágúst hef ég spjallað við Guð. Ég hef spurt hann álits á því sem ég hef verið að gera og hugsa þann daginn. Hann hefur nú litlu svarað en Guð er svoleiðis. Hann hlustar líka eitthvað takmarkað á mig, allaveganna bað ég hann um það sama þar til að kvöldi útfarardags Hilmars og það gerðist ekki. Ég bað hann að sjá til þess að ég vaknaði ekki aftur.Hver helv....dag hef ég samt vaknað aftur..bara eins og ekkert sé !
Hvern dag hef ég þraukað og sagt við sjálfa mig; Ragnheiður á morgun er dagurinn sem þú mátt verða snarbrjáluð !
Auðvitað er ég sár og reið út í þetta allt, ég vildi hafa strákinn minn áfram. Ég er líka sár út í þá sem áttu að reynast honum betur í lífinu en þeir gerðu, þar er þó undanskilin öll fjölskyldan hans. Þar gerðu allir það sem þeim var unnt. Það veit ég.
Minn drengur gengur nú með Guði en ég er hér ! Föst í kolsvartamyrkri og veit ekkert hvernig ég á að klóra mig út úr þessu....fjandinn hafi þetta allt !!!
7.9.2007 | 11:34
Ég gleymdi nokkru sem ég ætlaði að hafa með í næstu færslu.
Það sem hefur verið að trufla mig er ekki bara mín eigin sorg yfir að missa Hilmar..
Það er svo margt sem kvelur mann á slíkum tímum.
Útförin hans var óskaplega falleg, hún var hlý og svo sönn. Presturinn flutti magnaða ræðu sem hljómaði eins og hann hefði þekkt Hilmar persónulega, honum tókst meira að segja að láta kirkjugesti flissa svolítið. Útförina á ég á upptöku, ég fékk mér lítinn diktafón og frændi minn Haukur Atli sá um að taka upp fyrir frænkuna sína. Það er samt merkilega góð upptaka. Ég er búin að hlusta nokkrum sinnum á hana hér í tölvunni. Ég fékk Þorvald Þorvaldsson til að syngja vegna þess að ég hef oft hlustað á Þorra syngja og
það gerir hann vel. Hann brást heldur ekki þarna....ótrúlega fallegur söngur. Hann er einn af þessum vörðusteinum í lífinu. Líf manns er varðað af góðu fólki, stundum sér maður ekki hversu gott það var fyrr en eftirá. Þannig er t.d. Jenný Anna vinkona mín, hún er eitt þessarra ljósa í lífinu sem lýsa manni lengi, ótrúlega lengi.
Það var eitt sem kvaldi mig í jarðarförinni, það var að horfa á Björn minn, þann yngsta í því hlutverki að bera kistu bróður síns úr kirkju. Hann er 19 ára og á ekki að standa í neinum slíkum sporum. Mamma hefur reynt að verja hann fyrir áföllum en núna náði mamma ekki að vera skjólið hans. Það kvaldi mig líka að horfa á pabba hans, hann átti ekki heldur að þurfa að bera kistuna sonar síns. Sigþór og Valdi voru aftur í þessum sporum að missa bróður, einu sinni var meira en nóg. Þeir áttu ekki að þurfa að ganga sporin þungu tvisvar. Jón Berg tengdasonur minn er til þess að gera nýkominn í fjölskylduna, hann er samt þannig að þar hefur hann haslað sér völl þannig að hann tilheyrir okkur öllum héðan í frá. Hann gekk með öðrum líkmönnum og bar með okkur sorgina eins og hann hefur gert síðan Hilmar dó. Steinar minn, kletturinn minn, bar drenginn minn á móti pabba hans. Ég vildi hafa þá pabbana hans saman, fremsta í röð líkmannanna.
Ég gleymdi svo auðvitað hluta af því sem ég ætlaði að segja...eins gott að enginn verði móðgaður við mig. Ég er bara með utanviðmig á nokkuð háu stigi. Það eru sko fleiri sem áttu ekki að standa í þessum sporum, systurnar hans Hjördís og Sólrún, þær elskuðu þennan glannalega stóra bróður sem elskaði þær með öllu stóra hjartanu sínu. Þær voru settar í að bera blóm og kransa ásamt Auði litlu systur hans. Hjalti gat ekki tekið þátt í að bera bróður sinn, hann fótbrotnaði svo illa í júní að fóturinn hefði líklega ekki þolað þungann.Þegar það gerðist þá hringdi Hilmar í mig til að láta mig vita að Hjalli væri slasaður, hann hafði miklar áhyggjur af bróður sínum þá. Ég ætla að feitletra þennan texta fyrst ég gleymdi honum áðan.
Litlu systkynin í Grindavík áttu heldur ekki að þurfa að standa í þessum sporum. Fólk segir kannski að þau séu svo lítil að þau muni ekki muna Himmann, ég held samt að þau muni muna hann. Hann var bróðir þeirra og honum þótti vænt um þau. Því gleyma börn ekki.Hilmar minn var ríkur, hann átti 2 pör af foreldrum og þar fylgdi með auka afar og ömmur. Hann naut þess. Amma hans á Patró er svo yndisleg kona, hún hefur sjálf staðið í þessum ómögulegu sporum að missa son. Enda var hennar faðmlag þétt og skilningsríkt. Ég fann að hún skildi.
Nú þegar hefur auðvitað eitthvað gott skilað sér í þessum hörmungum. Bæði móður og föðurfólk Hilmars hefur þjappað sér saman og allir reyna að bera þennan kross í sameiningu. Ég hef kynnst litlu systkynunum og hlakka til að hitta þau næst.
Systurnar litlu eru svo opnar og brosmildar, það skína af þeim gæðin. Sverrir litli bróðir er aðeins meiri jaxl og vill vera viss um að það sé í lagi með þetta lið fyrst. Hann hefur ansi marga Himmatakta, bíladellan alveg að fara með hann. Mér finnst gaman að horfa á Sverri Breiðfjörð.
í gær skrifaði ég einusinni....í dag er ég búin að skrifa tvisvar. Greinilega fer þetta bara eitthvað eftir því hvernig ég er stemmd...ojæja....það er enginn neyddur til að lesa
Nú segi ég eins og Heiður í gær (www.snar.blog.is) vinsamlega gerið vart við ykkur í kommentunum, ég vil vita hverjir eru hérna að lesa.
7.9.2007 | 10:27
og var að lesa færsluna á undan og kommentin frá ykkur, þið eruð náttlega alveg mögnuð.
Ég spjallaði við Guð í gær. Ég skammaði hann svolítið fyrir að taka Himmann minn en ég sagði honum að fyrst hann hefði gert það þá ætlaðist ég til þess að eitthvað gott kæmi út úr þessu öllu saman. Hann hefði ekki leyfi til að taka Himmann og svo bara *púff* ekkert meira.
Það þarf að taka betur á málefnum ungra afbrotamanna. Ég myndi líka vilja sjá að geðlæknar og sálfræðingar tækju menn hreinlega í kerfisbundið viðtöl. Fangi á ekki að þurfa að panta slíka þjónustu og bíða svo. Kerfisbundin viðtöl myndu skila því að fangar gætu létt af sér því sem kvelur þá og byggt sjálfa sig upp meðan þeir eru í afplánun. Ég meina, þessir strákar eru harðjaxlar og það er ekki hægt að ætlast til þess að þeir panti slík viðtöl sjálfviljugir. Þeir hafa líka sumir orðspors að gæta, orðspors sem heldur þeim hreinlega á lífi utan rimlanna.
Svo myndi ég vilja sjá stóraukna þjónustu til barna og foreldra þeirra þegar ljóst er að barnið fylgir ekki norminu, eins og t.d mínir strákar allir. Þeir eru allir eldklárir en það þarf að ná til þeirra öðruvísi en gert er í skólastofunum. Bara svo ég nefni einn galla sem þeir bera allir sameiginlega þá eru þeir einkennilega fastir í úlnliðunum. Nú má vera að sá sem les hugsi,, já en það er ekkert mál. Jú það er heilmikið mál, þeir geta ekki skrifað ! Þeir geta ekki haldið á blýanti og fengið hann til að gegna sér.
Hilmar var á Stuðlum 2001. Hann var í hegðunarerfiðleikagreiningu. Hann var settur innan um krakka sem höfðu prufað dóp. Þetta tvennt passar ekki saman, það á að hafa 2 deildir fyrir þetta.
Hilmar vildi alls ekki taka lyfin við ofvirkninni þegar hann var orðinn 16 ára. Þá varð hann stjórnlaus og við horfðum á hann fara í allar áttir aðrar en þá réttu, ég man enn hvað ég var hrædd um hann. Hann var í seinni tíð sífellt að ná betur tökum á lífinu, hann hefði þurft nokkuð mikinn stuðning til að læra betur á sjálfan sig en honum hefði líklega alveg tekist það.
Nú held ég að ég fái mér kaffi, maður á ekki að skrifa ritgerð á kaffibollalausum maga.
Ein spurning að lokum;
Hvað getur það verið sem veldur doða í útlimum,bæði höndum og fótum og sjóntruflunum ?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.