Þriðjudagur, 18. september 2007
5 september 2007
5.9.2007 | 20:16
enda er ég búin að setja inn myndir af kistunni,krossinum og leiðinu. Það er í albúminu sem heitir Hilmar Már Gíslason.
Vegna þess að ég er alltaf að hugsa um Hilmar þá poppa upp minningar...
Þegar hann var í kringum 5 ára þá sé ég hann koma álengdar, alveg voðalega innskeifur og greinilega með mikinn ekka. Þá hafði vinur hans slegið hann með leikfangi þannig að skurður kom á kinnbeinið hans. Þarna fékk hann spékopp sem fylgdi honum lífið á enda. Í allan dag hef ég séð hann í huga mér, koma kjökrandi til mömmu sinnar. Hann var óvenju innskeifur líklega vegna þess að hann átti bágt. Elskulegur.....
Hann lærði snemma að vera góður við mann. Þá stakkst lítið andlit undir vanga manns og hann nuggaði nebbanum í hálsakot. Ef hann var nokkurn spotta frá manni þegar maður bað um knús þá kom hann hlaupandi en löngu byrjaður að nugga nebbanum í réttar áttir....klúsiklúsiklúsiklús ! sagði hann.
Þegar Alda mín (Alda Berglind) var hjá okkur einhverju sinni þá var síminn til hennar. Hilmar svaraði í símann og þaut svo inn ganginn að sækja hana, gólandi, : Alda Berglinddinddindind....Hún er síðan oft kölluð Dinddind hérna...
Hjalti er búinn að vera í stífri þjálfun undanfarna daga. Alltaf þegar Hilmar sat hjá mér í sófanum þá læddist hann til að leggja kollinn á öxlina á mér. Hjalti er að læra þetta núna og á að taka við þessu knúsuhlutverki
Þakka ykkur fyrir ykkar innlegg....það var bara eitt þeirra sem ég skildi ekki, snerist um eitthvað tengdó....skýring óskast, það má nota e mailið ef þetta er gríðarlegt leyndarmál
Ég er sátt en gríðarlega þreytt....skrokkurinn er alveg handónýtur orðinn.
Björn er kominn með nýtt indíánanafn, hann heitir Little Bear Rock núna, það sem þessi drengur er traustur. Sú stúlka sem nær í hann verður heppin, verst ef mamma tímir ekki sínum strák hoho
5.9.2007 | 10:20
en öðrum kannski síður.
Það má vera að fólk furði sig á því hversvegna ég skrifa hérna hugleiðingar mínar þegar ég ætti að liggja nánast í rúminu af sorg, enda búin að missa son minn. Í þessum pistli í dag mun ég leggja fyrir ykkur tvær spurningar sem ég ætlast til að þið svarið af heilindum, sömu heilindum og þið hafið lagt í allar samúðarkveðjur til okkar fjölskyldu Hilmars.
Sorg mín hef ég lokað aðeins innan í mér, sérstaklega þegar krakkarnir mínir sjá. Í þeirra huga er mamma harðjaxl ,töffari og kletturinn sem séfellt hefur staðið þarna og þau getað leitað skjóls hjá. Þau eiga öll erfitt með að sjá klettinn brotna. Mamma er enn kletturinn þeirra, skjólið. Mamman er hinsvegar brotin og lemstruð innan í sér og það á eftir að taka langan tíma að gróa yfir í þolanlegt sár. Auðvitað hef ég grátið og átti t.d. skelfing erfitt þegar við kistulögðum drenginn minn....hann var svo ekki líkur sjálfum sér þarna í kistunni sinni. Það vantaði þá strax svo margt sem gerði hann að Himmanum okkar og það var svo sárt. Núna eiga krakkarnir mínir ekki síður erfitt enda má ég segja það og halla ekki á neitt þeirra með því að segja Hilmar var samnefnari þeirra, hann var sá sem þeim þótti vænst um innbyrðis. Hann var bara þannig....
Þið sáuð hvernig umfjöllunin var um andlát Hilmars, fangi á Litla Hrauni svipti sig lífi. Ég skrifa hérna til að sýna ykkur að hann var ekki bara fangi, hann var sonur foreldra sinna sem elskuðu hann. Hann var bróðir systkyna sinna sem elskuðu hann. Ég vildi koma því til lesenda að muna að hugsa ekki um einhver hóp manna sem ómögulega þjóðfélagsþegna. Fangi er ekki bara fangi, fíkill er ekki bara fíkill. Horfið á þá með mannlegum skilningi, þeir eru synir mæðra sinna og feðra.
Fyrri spurning mín er þessi : Telur þú þessi skrif hér hafa opnað augu þín fyrir því að fangar eru líka fólk ?
Ég les öll kommentin ykkar, hvern dag. Ég er ekki jafnklár að svara ykkur hverju og einu eins og til dæmis hún Jóna gerir (www.jonaa.blog.is) enda er hún upprennandi rithöfundur en ég bara símastúlka og atvinnubílstjóri.
Mér þykir samt vænt um kommentin ykkar og í dag kom eitt að austan, fyrir það þakka ég. Þeir héldu minningarathöfn fyrir austan í gær og ég var glöð. Ég veit að þar, þar sem illmennskan ein á að búa, er gott samfélag manna. Þeir eiga við sitt að stríða og ég óska þeim góðs í því. Megi Guð fylgja þeim og leggja þeim beinni veg. En ég veit líka að þessir menn eru margir afar hjartagóðir og þeir eiga líka allt gott skilið eins og önnur Guðsbörn. Mitt hlutverk er ekki að dæma þá, það er annar í því hérna á jörð og svo munu þeir eins og ég mæta sínum hæsta dómara þegar sá tími kemur.
Guð veri með ykkur strákar mínir fyrir austan.
Fangaverðir hafa verið mér hugleiknir síðan Hilmar minn dó. Fyrir þeim hef ég beðið og vonað að þeim líði betur. Fangelsismálastjóri fullvissaði mig um að um þá væri séð, ég vona að það sé nóg.
Nú er þessi færsla að verða gríðarlöng og ég biðst velvirðingar á því...
Hin spurningin mín er þessi ; er óviðeigandi að birta mynd af kistu Hilmars ?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.