3 september 2007

3.9.2007 | 18:00

Í dag hef ég

verið glöð, það kann að hljóma hálffáránlega miðað við aðstæður en það er samt þannig. Fékk símtal í morgun sem létti steini af mér, stórum steini. Að uppgötva mannlega eiginleika í ríkisbatteríi er nokkuð merkileg upplifun og mikið skelfing getur það glatt mann.

Fékk símtal frá móður sem stóð því miður í sporunum mínum fyrir 5 árum rúmum. Það var gott að heyra í henni, manni fannst eins og hún skildi...án orða.

Fékk svo annað símtal frá vini mínum sem er með magnað gullhjarta, hann sýnir það kannski ekki hverjum sem er en það var notalegt að tala við hann líka. Hann hefur margar fjörur sopið sjálfur og lífið hefur kennt honum margt. Hann ætlar að verða mér innan handar við nokkuð sem ég gæti þurft að gera. Það er gott.

Svo komu þau elskulega mæðgin, Sigga systir mín með Haukinn sinn, þennan ljúfa og góða dreng sem nánast ber hjartað að utanverðu. Þvílíkur gæðastrákur sem hann er og hefur alltaf verið.

í dag er ég glöð, glöð yfir að hafa átt Hilmar. Það var yndislegt.

Í dag hef ég líka fengið góð email. Minningarorðin frá prestinum,afburða góð..ég kannski birti þau á morgun eftir jarðarförina. Yndisleg ljóð frá tengdamóður minni, þau eru hérna á síðunni. Ekki alveg kannski nógu snyrtileg en það er mín sök, ekki hennar.

Í dag er ég glöð.

3.9.2007 | 15:29

Ljóð frá tengdamömmu

Móðurást

Bjartari

en heiður vormorgunn

er hamingja móður

þegar hún leggur nýfætt

barn sitt að brjósti sér

glaðari

en fegursti fuglasöngur

er gleði móður

þegar hún fylgist með

þroska barna sinna

sterkari

en allir stormar lífsins

er ást móður

til barna sinna

dýpri

en svörtustu myrkur

er sorg móður

sem syrgir barn sitt.

Trú von og kærleikur

Eins og stjarnan

lýsir í myrku

himinhvolfinu

lýsir trúin í myrkri angistar okkar.

Eins og fræið

liggur í moldinni

og vaknar að vori

lifir voni í djúpi sálar okkar.

Eins og glóðin

lifir í öskunni

og kveikir báli

vermir kærleikurinn hjörtu okkar.

Missum ekki trúna

vonina

og kærleikann

leyfum þeim að lýsa upp líf okkar

3.9.2007 | 11:18

Ég er hérna

loksins eftir að hafa setið uppi hálfa nóttina.

Heilsufarið er eitthvað að bregðast okkur hérna í bili, Björn steinliggur í hálsbólgu. Skrokkurinn hjá mér er farinn að æpa hinsvegar. Öll sjúkraþjálfunin og allar æfingarnar hafa verið unnar fyrir gýg, verkurinn nær nú orðið úr öxlum og niður allt bak, fram í handleggi og auðvitað meira þennan ónýta vinstra megin. Höfuðið er farið að fá hausverk og ég er farin að ganga á verkjatöflum....

Ég þurfti að hafa nokkuð fyrir því að styðja Hjalla í gær, hann varð frekar miður sín kallanginn. Hann varð svo sár og reiður enda blandað í mál sem honum kom ekki við. Það höfum við fengið staðfest.

Ég hugsaði um það í gær að hætta að skrifa hérna en vildi svo ekki afhenda fólki út í bæ slík völd.

Ég ætla þegar aðeins fram líður að afrita það sem ég hef skrifað í þessu sorgarferli og geyma það, geyma það í skáp sem ég keypti á laugardaginn undir ýmislegt sem minnir okkur á Hilmar.

Auðvitað er til eitthvað af fólki sem telur Hilmar hafa brotið eitthvað á sér, það bara skiptir ekki máli núna. Hann er kominn inn í ljósið þar sem dómar mannanna ná ekki til hans.

Þakka ykkur fyrir öll fallegu kommentin ykkar

PS.

Ég var að lesa drög að minningarorðunum hans Hilmar, þau eru svo falleg. Ég er svo sátt við þau. Svo fékk ég símtal (kann ekki við að nefna frá hverjum) en þetta símtal var svo kærkomið. Ég náði líka að losna við nokkurn kvíðahnút í leiðinni sem snýr að Hjalta.

 

Það verður haldin minningarathöfn fyrir austan um Hilmar minn, það er verið að reyna að hjálpa föngum og fangavörðum að komast yfir þetta áfall. Guð veri með þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband