Þriðjudagur, 18. september 2007
26 ágúst 2007
26.8.2007 | 10:04
Þennan morgunpistil ætla ég að nota í að reyna að rifja upp síðastliðinn sunnudag.
Samt ætla ég að byrja á fallegu smáhlutunum. Við erum með smá pallræmu hérna bakvið hús. Á pallinum er einn af útistólunum mínum,hinir eru á stóra pallinum. Steinar fer út með hundana í gær og ég sé að hann sest á stólinn. Eftir smástund kallar hann í mig. Þegar ég kem út þá bendir hann á fallegu stjörnurnar og segir ;hvar heldurðu að strákurinn okkar sé ? hvaða stjörnu hefur hann valið sér ? Ábyggilega þessa flottustu segi ég og skoða þær allar. ,,Já " segir Steinar, hann situr þarna upp og horfir á okkur.
Mér barst bréf í morgun, e mail. Það er frá ungum manni sem missti bróður sinn svona fyrir nokkrum árum. Mér þótti vænt um þetta bréf. Hann bendir mér líka á ágætar greinar sem fjalla um sorgina. Elsku vinur, þakka þér fyrir.
Sunnudagurinn 19 ágúst.
Ég vaknaði um 10 leytið og skálmaði hérna fram í náttfötunum. Ég held að ég hafi skrifað eitthvað hérna inn á síðuna og ákveðið svo að skríða aftur upp í rúmið mitt. Bóndinn heima og það hefur verið sjaldgæfur lúxus í sumar.
Ég skríð framúr aftur rétt fyrir hádegi, kem mér fyrir í stofusófanum og ætla að hlusta á hádegisfréttirnar á gufunni. Það er einhver óeirð í hundunum. Ég held fyrst að það sé vegna þess að nágranninn er að vinna í húsinu en finnst ég svo heyra að einhver er við dyrnar. Svo er bankað. Steinar fer til dyra, ég ekki hrifin af því að sportast á náttfötunum fram í hurð. Steinar kemur til mín og segir að það sé prestur frammi sem þurfi að færa mér slæmar fréttir.
Ég stekk framm. Maðurinn kynnir sig og biður um fá að koma inn. Hann gengur með mér inn í stofuna, snýr sér að mér og segir ; Ég er kominn til að tilkynna þér lát Hilmars, hann svipti sig lífi í klefa sínum í nótt. Næst man ég að hann segir mér að setjast niður. Hann segir okkur að ekki sé nákvæmlega vitað hvenær þetta gerist en klefinn hafi verið opnaður um morguninn klukkan 8 og þá hafi þetta komið í ljós. Hann segir að drengurinn minn sé á sjúkrahúsinu á Selfossi og við megum sjá hann þar. Svo spyr hann um systkini hans og ég sýp hveljur, Björninn minn svaf hérna inni og ég flýti mér að vekja hann. Bið hann að koma fram og fyrst ætlar hann að koma í sænginni. Ég segi honum að klæða sig og hann gerir það. Honum er svo sagt þetta hérna í stofunni að viðstöddum fangaprestinum.
Eftir á þá hélt ég að pabbi minn gamli væri dáinn, ég var með nafnið rétt en ekki réttan Hilmar samt. Presturinn kynnti sig samt sem fangaprest en ég heyrði það bara ekki. Ég fattaði það eftir á. Hefði ég heyrt það þá hefði ég áttað mig strax á að málið væri um drenginn minn fyrir austan.
Ég vona að fangavörðunum líði betur og að þeir hafi fengið áfallahjálp og þá aðstoð sem þeir eiga að fá. Ég hef reynt að biðja fyrir þeim líka, senda þeim ljós og góðar hugsanir.
Ég ætla að klára söguna af þessum sunnudegi seinna í dag. Takk fyrir kveðjurnar elskurnar, ég er annars talsvert hugaðri í dag en í gær
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.