24 ágúst 2007

24.8.2007 | 16:05

Sögustund

Meðan ég sit hérna ein og er ekkert sérstakt að afhafast í augnablikinu (kaffi og sígó telst ekki til athafna hérna) þá ætla ég að reyna að rifja upp sögur af Hilmari, bæði af honum og um hann. Ég býst við að færa svo færslurnar inn öðruhvoru. Ég hef svo hugsað mér að búa til sér síðu með mínum dreng og hafa hana hérna til hliðar við daglegt raus. En það gerist ekki meðan þetta er enn svona sárt.

Þeir eru frekar líkir mínir piltar enda allir smíðaðir úr sömu erfðaefnum, albræður. Nokkur munur er þó á þeim og sér í lagi misbrosmildir.

Björn skýrir muninn á bræðrunum svona ;

Fyrst bjó Guð til Hilmar ,horfði á hann og tautaði fyrir munni sér ; nei heyrðu þessi brosir allt of mikið, ég verð að reyna aftur !

Þá smíðaði hann Hjalta og skoðaði hann ; nei þetta gengur ekki ! Þessi brosir ekki neitt !!

Þá vandaði hann sig ógurlega og bjó til Björn. Og ég er fullkominn ! segir Björn.

Hilmar gat hlegið endalaust að þessu hjá litla bróður.

---------------------------------------------------------------------------------------------

Hilmar minn var nánast fæddur með gríðarlega bíladellu. Við vorum einmitt að rifja upp í gær að hann var afar góður ökumaður en maður gat verið í stórhættu að hann labbaði á mann. Hann var frægur flækjufótur og stakkst á hausinn alla tíð. Þessu ollu þessi veikindi hans, hann var ofvirkur með athyglisbrest og misþroska. Kallanginn hennar mömmu sinnar. Hún Dísa sem hefur birst hérna í kommentum er mágkona Hilmars. Hennar maður var Hafþór, stóri bróðirinn hans Hilmars sem lést sviplega í slysi 2002. Hann og Hilmar áttu margt sameiginlegt, meðal annars þennan ódrepandi bílaáhuga. Núna er örlítil huggun í að Hafþór hafi tekið litla bróður sinn í fangið við þessi snöggu umskipti

.

24.8.2007 | 21:25

Ansi verður manni

þungt um öðru hvoru, ég fæ svona þyngslatilfinningu fyrir brjóstið og mér finnst hjartað alveg vera að bresta. Svo líður þetta hjá og ég lagast aftur. Ég fékk martröð í nótt og varð að hnippa í kallinn minn til að fá lánaða hendina hans. Það var rosalega óþægilegt.

Ég fékk bók frá útfararstjóranum um sorg og þar er farið yfir þetta ferli allt lið fyrir lið. Þar er líka bréf sem maður getur sett nafn hins látna inn í, þetta bréf er fyrir þá sem missa ástvini sína eins og ég núna. Sumt í þessu bréfi passar en sumt passar ekki, það kannski passar seinna, ég veit það ekki ennþá. Ég er ekki reið við Hilmar minn, ég veit að fyrst hann gerði þetta þá gat hann ekki meira. Ég er hinsvegar nokkuð sár út í lífið hans, hann þurfti að fara svo erfiða leið í gegnum þetta allt. Vesalings, vesalings kallinn minn.

Ég veit ekki hvernig ég á eiginlega að hafa þetta af...stór hluti af mér vill bara gefast upp en það má ég ekki vegna hinna sem á mig treysta. Ég sé ekki lífið fyrir mér án Hilmars.

Fjölskyldurnar hafa samt þjappast saman við þetta, það eru allir svo miður sín. Allar gamlar væringar og leiðinlegar tilfinningar hafa strokast út. Það er mikill samhugur í gangi hjá okkur sem næst honum stöndum, ég get enn ekki talað um hann í þátíð. Hann ER drengurinn minn þó látinn sé.

Ég þarf að reyna að finna mér útrás í einhverju. Ég bara verð !

----------------------------------------------------------------------------------------------


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband