Dagur 7

25.8.2007 | 16:20

Að finna leiðina

er hreint ekki það auðveldasta.

Þessi dagur hefur verið eins og næstum öll þessi vika, það er þessi doði í höfðinu og eiginlega finnst mér ég bara vera að bíða eftir að einhver veki mig. Þetta hljóti allt bara að vera tóm vitleysa.

Solla mín var hér í gærkvöldi, hún er svipuð. Hún trúir eiginlega ekki í augnablikinu að Hilmar sé dáinn.Samt veit hún vel að svo er, hún fór með okkur austur að sjá líkið síðasta sunnudag. Svo er meira um að vera hjá henni eins og er. Hún á yndislega ömmu sem er búin að kljást við veikindi í sumar. Nú liggur amman sofandi í öndunarvél á sjúkrahúsi og getur farið í hvora áttina sem er. Þau eru líka að fá afhenta íbúðina sem þau voru að kaupa og hún er byrjuð í skóla. Það er mikið um að vera hjá henni...Svo síðast en ekki síst þá á hún von á barni og það á að koma um miðjan nóvember.

Bjössi var ekki heima í nótt, hann var hjá vini sínum. Um leið og hann vaknaði þá var hann búinn að hringja í mig að gá hvernig ég hefði það. Hann virðist ætla að taka þetta að sér þannig, passa mömmu sína eins vel og hann getur. Það er óskaplega erfitt fyrir hann, ungan mann, að þurfa að fullorðnast allt í einu. Það hefur aldrei verið neitt vesen á honum en basl bræðra hans hefur fengið á hann í gegnum tíðina. Hversu oft höfum við ekki setið, ég og hann, og rætt áhyggjur okkar af þeim og hræðsluna við að einhverjir vofeiflegir atburðir gerðust í kringum þá bræður.

Þetta var samt ekki það sem manni hefði dottið í hug með Hilmar. Ekki að hann tæki líf sitt, alls ekki. Svona skapgóður og glaður sem hann alltaf var. Þetta er afar ólíkt þeim Himma sem við þekktum en er til merkis um það hversu ótrúlega erfitt hans líf var orðið.

Aðstæðurnar þegar hann er settur inn voru líka nokkuð áfall fyrir hann og okkur í sjálfu sér. Hann er dæmdur í maí og taldi sjálfur að hann færi ekki inn fyrr en í vetur næsta. Svo klagar, fyrrum kærasti stúlkunnar sem hann er með, Himma fyrir tilraun til innbrots. Himmi er pikkaður upp og yfirheyrður, í því ferli kemur í ljós að hann á eftir að afplána þennan 3ja mánaða dóm og hann er sendur beint í afplánun. Hann hringir í mig og biður mig um að sækja bílinn sinn sem varð eftir í lögguportinu. Ég var alveg jafn hissa á þessu og hann. Venjulega hefur hann vitað með aðeins fyrirvara að hann eigi að fara inn og getað komið og kvatt sitt fólk, en nei ekki í þetta sinn. Bíllinn hans stóð hérna og ég hrökk upp við það nokkrum dögum seinna að það var verið að taka bílinn. Þegar ég fór að skipta mér af því þá var það þessi kærasta og líklega bróðir hennar. Þau fóru svo á bílnum austur til að færa Himma föt. Næst þegar þau tóku bílinn þá seldu þau hann fyrir Himma. Kannski eins gott, ég er ekki viss um að ég hefði fengið af mér að gera nokkuð með þennan bíl, hann hefði staðið þarna til eilífðarnóns bara. Það vill til að innkeyrslan hjá mér rúmar marga bíla.

Smásögukorn í viðbót;

Himmi var alltaf fljótur til að tileinka sér hluti og flýtti sér mikið að verða stór. Eitt loddi þó við hann frameftir aldri, ef hann meiddi sig þá varð mamma að kyssa á það. Einn daginn kemur hann gólandi inn og heldur um afturendann. Æj á ég að kyssa á það ; segi ég án þess að sjá hvar meiddið er. Hann snarar niður buxunum og bendir á rauðan blett á botninum á sér. Hilmar ég get nú varla farið að kyssa þig á rassinn ;segir mamman. Lítill gutti stendur hugsi fyrir framan mig og segir ; nei það gengur ekki. Upp fóru buxurnar og hann skottaðist áfram út að leika, alsæll. Síðan bað hann ekki um að kyssa á neitt...

Alla ævina sína var hann óttalegur knúsikall við mig. Ef hann sat við hliðina á mér þá leið yfirleitt ekki löng stund þar til hann lagði kollinn sinn á öxlina á mér. Það var hans leið til að hvíla sig og segja mömmu sinni að honum þætti vænt um hana. Hann knúsaði mig í vinnunni þó að margir kallar sæu,honum var sama um það.

Þegar Himmi var 10 mánaða þá steinhætti hann að samþykkja að ég mataði hann. Hann vildi gera sjálfur og hætti ekki fyrr en mamman leyfði það. Maturinn fór fyrir ofan garð og neðan en honum tókst að læra þetta. Þá var hann ógleymanlega ákveðinn.

Meira seinna, takk fyrir fallegu kveðjurnar

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband