Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Sunnudagsmessa

með undarlegum skugga kringumstæðnanna í þjóðfélaginu. Við fórum í morgun í messu, tilefnið var skírn bróðurdóttur Steinars sem fæddist mitt í hringiðu bankahrunsins. Telpan hin ljúfasta og svaf af sér allar fyrirbænir og ræðuhöld. Foreldrar hennar halda henni veislu á eftir.

Prédikun dagsins var um "það sem þér gjörið mínum minnstu bræðrum......" Ávallt þörf áminning og góð. En hinn anginn sló mig hinsvegar fast í höfuðið. "Það sem þér gjörið EKKI mínum minnstu bræðrum..." Það veit sá sem allt veit að þar er ég brotleg. Ég hef oftar en ekki EKKI gert neitt þegar ég hef átt þess kost, ég hef kosið að líta í aðra átt. Þetta gerum við mörg. En ég hef talið mig "syndlausan" einstakling. Nú veit ég betur.

Prédikunin var nokkuð pólítísk, vakti upp margar hugsanir og spurningar. Hann talaði um að nú hrykki þjóðfélagsvélin í gang við innspýtingu IMF. En hvert ætti að halda ? Hvert ætti að sigla ?

Ekki veit ég það

Nú fara bráðum að skýrast línur, meðal hópa sem andsnúnir eru stjórnvöldum, aðgerðum og aðgerðaleysi. Þá kemur betur í ljós hverju maður getur fylgt að málum.

Ég sakna aðgerða, aðgerða sem miða að því að laga stöðu heimilanna ÁÐUR en í óefni er komið. Allar aðgerðir sem kynntar hafa verið eru eiginlega of lítið og of seint. Ég lifi frá einum mánaðamótum til þeirra næstu, ég veit ekkert hvort ég á fyrir reikningunum næstu mánaðamótin. Það er seinni tíma vandamál. Missi ég húsið þá er það bara þannig. Það er samt ekki neitt óyfirstíganlegt vandamál.

Ég vil samt að eitthvað sé gert til að koma í veg fyrir að greiðslubyrðin aukist á lánunum mínum. Nú þegar hefur vinnan dregist saman um 25% og Steinar er búinn að missa hina vinnuna og þarf núna að vera bara í "einni" vinnu. Við höfum samt bæði vinnu, það er meira en aðrir hafa.

Ég hef ekki áhuga á að velta mér uppúr þessu. Ég hef hinsvegar átt nokkuð bágt með að fóta mig á andlega sviðinu. Sorgin vill enn læðast aftan að mér og slær mig þá oft illa. Oftast er ég óviðbúin. Ég sé ekki hættumerkin enda eru þau lúmsk. Strákur á ferð sem minnir á Himma. Það er nóg. Um daginn var Steinar að horfa á sjónvarp og þar sást ungur maður fyrirfara sér. Ég hvæsti á hann að skipta strax um stöð. Sumt bara einfaldlega þoli ég ekki- ekki á nokkurn hátt.

Ég ætla að fara að gera mig klára í að gleðjast með foreldrum ungrar telpu sem á framtíðina fyrir sér.

Hérna kemur svo til skrauts ein mynd úr afmælinu í gær. Skemmtileg mynd sem líkist því helst að systir ætli að kyrkja mig á staðnum hehe

systiraðkyrkjamig

Og þið takið eftir að hvorki pabbi né Steinar gera hið minnsta til að bjarga mér. Fórnarlamb.is haha 


Ungur maður

bauð til veislu í dag með dyggri aðstoð foreldranna sinna góðu. Hann er bara að verða eins árs og getur tæplega staðið fyrir miklum veisluhöldum sjálfur.

Þannig í dag var ég "löglega" afsökuð í mótmælamætingu.

Allar aðrar hugsanir eru á leiðinlegum nótum og ég ætla ekki að setja þær hérna.

hilmarflottastur3

Hérna er ungur maður, talsvert yngri en hann er í dag. Amma hafði enga myndavél meðferðist í dag, vélin hennar ömmu orðin léleg.


Hvísl um miðja nótt

Veittu líkn í þungri þraut

Þerra sorgartárin

Upp við geislum skrýdda braut

óðum hverfa árin.


Hvað hefur breyst ?

6 maí 1918

Ég gerði það kraftaverk í gær, að hlusta á umræðuna í báðum deildum. Fór fyrst í neðri deild af því að ég bjóst við að Bjarni frá Vogi myndi halda tveggja tíma ræðu um stækkun verslunarlóðarinnar í Ólafsfirði og ætlaði þá að fá mér lúr á meðan. En hvað skeði. Bjarni steinþagði og ég man ekki eftir að það hafi komið fyrir fyr öll þau ár sem ég hef setið á þingi. Stefán í Fagraskógi segir í greinargerð fyrir frumv. að maður verði að sæta sjávarföllum til þess að komast að landi í Ólafsfirði og þessu hefur Bjarni ekki treyst sér til að leggja út af því það var stórstraumsfjara í heilanum.

Með þennan greinargerðar-vísdóm Stefáns sætti ég sjávarföllum og flýtti mér inn í efri deild. Um leið og ég gekk inn, lamdi forseti stóra hamrinum- aðalverkfæri deildarinnar- í borðið af þunga svo miklum að Pétur biskup dinglaði fram og aftur um vegginn en stór klöpp féll úr Almannagjá og gjöreyðilagði vasabók 1. landskjörins varaþingmanns og tók einn þumalfingurinn alveg af. Ég leit óttasleginn yfir deildarsalinn, gaut hornauga til hins hræðilega verkfæris forsetans og kastaði mér síðan á sund inn salinn því sjávarföllin hans Stefáns voru hagstæð. Hægt og rólega synti ég fran hjá spýtubakka Magnúsar Torfasonar sem er ljósblár að utan en svartur innan í og var sjórinn skítugur mjög þar í kring. En áfram hélt ég samt og létti ekki sundi fyr en ég komst upp að forsetapalli. Forseti reiddi hamarinn enn einu sinni en eg kraup undir stól hans og lagðist þar eins og hundur enda var ég hundvotur. Brimrót var mikið í salnum svo eg heyrði ekkert en það sá ég þó að í hvert skipti sem forseti bað deildarmenn að rétta upp höndina þá rétti Magnús Torfason up stóran gulan blýant í hæð við nefið á sjálfum sér. Mundi eg, væri eg forseti, senda Magnús í líkamsæfingar til Ingibjargar Brands , sem ef eg þekki hana rétt, svei mér myndi ekki vera lengi að rétta úr honum.

4. maí

Erlendínus

°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°

Þeirra tíma þingfréttir. Spýtubakkinn sem nefndur er, er auðvitað hrákadallur. Annað held ég að skýri sig sjálft.


Óttalega mismunandi

þessir þingmenn, ég er búin að horfa/hlusta á þá í dag. Sumir þeirra er einfaldlega slappir ræðumenn og ná alls ekki að koma sínum sjónarmiðum að. Þetta er sérkennilegt að fylgjast með, svo er alls ekki sama magn og gæði en það þekkir maður auðvitað líka af blogginu.

Við Hjalti skutluðum okkur í kyrrðarstund í dag, svo "stal" ég honum og fór með hann heim til mín. Ég var að enda við að skila honum heim aftur.

Annars fékk ég bókatíðindi í dag, það verður spennandi að sjá hvaða bókmenntir er boðið upp á fyrir þessi jól. Mig langar í Jónu bók og líka í bókina um Sri eftir Ragnhildi. Langar líka í bókina sem Sigmundur er með núna en ég hef ekki séð fleiri sem höfða til áhuga míns. Ég er voðalega vandlát á bækur og bíómyndir, alveg hætt að nenna í bíó orðið...en nenni enn að lesa bækur og finnst engin jól nema ég geti skriðið upp í rúm með bók.

Ég fæ samt yfirleitt ekki bækur í jólagjöf og síst núna, þær eru einfaldlega of dýrar. Ég gef mínu fólki ódýrar gjafir þetta árið en ætla að fara með smá aura til samtaka sem aðstoða fólk til að kaupa matvæli fyrir jólin. Ég styrkti sjálf eina fjölskyldu síðustu jól en ætla að dreifa því aðeins meir þetta árið.

Ég er að sjóða kjöt og hef kjöt í karrý á eftir....namm namm


Byrja daginn á að...

átta mig á að þrátt fyrir brúnu augun þá hef ég verið bláeygð.

Ég hef greinilega allt of jákvæðan og meinlausan hugsunarhátt til að fatta hvernig sumir hlutir hafa gengið fyrir sig hér á landi.

Nú nú

Það sem olli þessari vitrun í morgunsárið var grein í FB um Davíð og Ólaf Ragnar og Dorrit. Ég hef hingað til alveg náð að fatta að fólk hefur misnotað aðstöðu sína til að liðka fyrir sjálfu sér, vinum og vandamönnum í kerfinu. Svona fyrirgreiðslupólitík.

Mér hafði bara, fjandinn hafi það, ekki dottið í hug að menn notuðu "öfuga" fyrirgreiðslu til að koma höggi á andstæðinga sína. Mér hafði sem sagt ekki dottið í hug að menn reyndu að nota völd sín til að koma höggi á þá sem þeim er illa við.

Það vita allir að Davíð er og verður illa við Ólaf Ragnar.

Ætli ég geti fengið einhversstaðar uppfærslu í heilann á mér svo ég nái að fatta svona hluti áður en þeir standa svartir á hvítu á eldhúsborðinu hjá mér ?

Það er nú ekki hægt að vera svona hrekklaus ?!

Ragga kjáni farin að finna sér viðráðanlegt verkefni

 


hvað skal færslan heita?

Í dag hefur hugurinn verið fastur hjá Fjólu og Mumma, þau eru að upplifa fyrsta afmælisdaginn eftir að hafa kvatt son sinn litla eftir alvarleg veikindi í mars sl. Ég veit hversu erfitt þetta er. Öðru hvoru hafa augun fyllst af tárum og ég vildi að ég gæti tekið sársaukann þeirra burt, hann er svo sár.

°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°

ég botna enn ekki neitt í neinu. Þessi segir þetta og hinn segir hitt. Við tökum Icesave dótið á okkur og mér skildist að hvert okkar skuldaði þá 4.5 milljónir. Í viðbót erum við hvert og eitt hryðjuverkamenn.

Ég þræti

Er þetta hérna ímynd hins skuldseiga hryðjuverkamanns ?

Minningardagur Hilmars 032

Ja það gæti verið, hann er amk smá stríðinn blessaður hehe...elskan hennar ömmu sinnar.

Ég sagði við Björn í kvöld að ég væri hætt við að mynda mér skoðun á öllu þessu dæmi núna, ég ætla bara að bíða þar til ég er komin á elliheimili og fá þá lánaða bókina um málið, skrifaða af virtum sagnfræðingi.

Ég er miklu meira en leið á álitsgjöfum, bæði í fjölmiðlum og sjálfskipuðum, stjórnmálamönnum, niðurdregnum almúganum og bretum. Leiðinlegast af þessu öllu er gífuryrðabloggið frá einhverju liði sem telur sig hafa eitthvað vit á draslinu.....

Fann leið.....farin...bæ


Til gamans

Lesið greinarstúfinn sem heitir Brandur  Þetta er úr mogganum í janúar 1918 og fjallar ekki um kött.

Vonandi virkar þetta, ef ekki þá verðið þið að hnippa í mig og ég laga

Hérna kemur Brandur:

Ég ætlaði hérna upp að hafnaruppfyllingunni með mótorbátinn minn - það er alveg nýr 40 tonna bátur og fallegasti báturinn á höfninni, skal ég segja ykkur.

Mótorinn bilar raunar stundum en Gissur gerir við hann jafnóðum og tekur sama og ekkert fyrir.

Jæja, ég ætlaði sem sagt upp að hafnarfyllingunni. Ég lét mótoristann fara að hita upp en fór sjálfur að lesa hafnarreglugerðina sem Guðmundur hafði gefið mér , til þess að gera nú ekki neinar vitleysur.

Ég kemst aftur í 16.gr og rek mig þá á þetta: "Brandar skulu dregnir inn og rám snúið".

,,Hvað eru nú þessir brandar,, spyr ég sjálfan mig. Líklega eitthvað af þessum nýju orðum sem þeir eru að búa til hérna í landi og ætlast til að við notum á sjónum.

Ekki getur það verið eldibrandur og ekki getur verið að þeir meini kokkinn. En hver þremillinn er það þá ?

Engin íslenzk-dönsk orðabók til. Ég ætla að reyna hvort Geir hefur það ekki.

Reyndar hef ég aldrei verið ensku-maður en hver veit nema ég skilji hana betur en nýju íslenzkuna.

Ég fletti upp br-br-bra-brandur : Blade of sword:firebrand. Það er alt of sumt. Geir hefir það þá ekki til og ég fleygi frá mér orðabókinni.

Ég bið svo kokkinn að kalla á stýrimanninn og þegar ég heyri fótatakið í stiganum hrópa ég :

Veiztu hvort hér sé nokkuð um borð sem heitir brandur ?

Brandur ? segir stýrimaðurinn hissa,, hann Brandur gamli á Eiði var hérna í gær..

Hvern fjandann varðar mig um hann Brand á Eiði ? Ég þarf að vita hvort nokkur hlutur er hérna á skipinu sem landkrabbarnir kalla brand. Hafnarreglugerðin skipar að draga þá inn áður en farið sé upp að bryggjunum en ég veit ekkert hvað brandur er og er þess vegna í standandi vandræðum !

,,Ætli það sé ekki í orðabókinni hans Jóns Ólafssonar ? spyr stýrimaður.

Þá man ég alt í einu eftir því að Jón heitinn Ólafsson var einu sinni að semja orðabók. Ég lét þá róa með mig í land ,þýt upp á landsbókasafn og fæ orðabókina.

En ekki tekur þá betra við. Brandur þýðir þar stólpa eða staur til að festa landfestar um.

Ég fer út í illu skapi en mæti þá kunningja mínum sem segir mér að brandur muni vera það sem hingað til hefur almennt verið nefnt bugspjót en að klýfirbóma heiti brandauki.

Ég hljóp þá heim til mín og fletti upp orðinu "spryd" í orðabók Jónasar en það er þá ekki til. Þá fletti ég upp "bowsprit" í orðabók Geirs og leggur hann það út bugspjót. Þar næst fletti ég upp "klyverbom" í orðabók Jónasar og leggur hann það út sem brandauki. Þá fletti ég upp "jib-boom" í orðabók Geirs en hef ekki annað upp úr því ewn að "jib" þýði fokka.

Eftir alla þessa orðaleit kemst ég helst að þeirri niðurstöðu að brandur sér það sem við sjómenn almennt nefnum bugspjót, danir Spyrd og englendingar Bowsprit en að brandauki sé klyfbóma.

En - ætlast þá semjendur hafnarreglugerðarinnar til þess að skonnortur sem koma hér upp að bryggjunni taki bugspjótið (brandinn) inn á þilfar ?

Eða hvað þýðir orðið brandur á einhverju máli sem menn tala ?

°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°

Þessi klausa vakti kátínu hjá mér í gær. Þarna var um algert skilningsleysi yfirvaldsins/almúgans að ræða ..könnumst við eitthvað við slíkt ?


Jahérna

Fyrst vil ég þakka kærlega og af heilum hug kveðjurnar og ljósin hans á kertasíðunni. Þið vitið líklegast ekki hversu innilega kertin ylja mér um bilaðar hjartarætur.

Birni er að batna. Hann er bara eins og fílamaður öðru megin en ekki báðu megin eins og hann var. Hann er líka á rótsterku pensillíni sem er kattahlandslykt af. Hann segir að bragðið sé eins. Það er svo mikill óþverri að hann fær brjóstsviða af því.

En annars sýnist mér kerfið vera að hrynja innanfrá. Guðni hættur og ég geri ráð fyrir að Framsóknarflokkurinn sé þar með ónýtur..vegna mergjaðra innanflokksdeilna. Það breytir engu fyrir mig, hef aldrei sett x við þann listabókstaf.

Hér kom skemmtilegur smástrákur í gær. Amma er með rauðar lugtir í stofuglugganum sem stundum eru hengdar út á greinar í garðinum, voða sætt. Hilmar Reynir sá þær og vildi hafa hönd á þeim.

Afi sagði : NEI

Hilmar stóð grafkyrr og horfði hissa á þennan leiðindaafa. Hann potaði varlega í aðra lugtina.

Afi sagði : NEI

það er smáskot þarna og inn í það bakkaði smástrákurinn. Gægðist öðruhvoru fram og horfði á afann. Afi horfði til baka. Smástrákurinn hugsaði sitt ráð. Svo fannst honum afi ekki horfa nógu nákvæmlega á sig og það heyrðist hrossahlátur í horninu. Svo gægðist hann fram og kíkti glottandi á afann.

Smá hrekkjalómur hehe. Það var ferlega gaman að fylgjast með þessu.

°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°

Einn vinnufélaginn var heppinn með farþega um helgina. Þeir óku sem leið lá heim til farþegans og voru komnir inn í húsagötuna. Skyndilega steinþagnar bílstjórinn og stígur um leið á bensíngjöfina. Bílinn æðir áfram en farþeginn er snöggur að hugsa. Hann rífur í handbremsuna, hringir í neyðarlínuna og nær bílstjóranum út úr bílnum. Lögreglan kom mjög fljótt. Okkar maður er á sjúkrahúsi og vonandi á batavegi.

Farþeginn maður á miðjum aldri, fumlaus og ákveðin viðbrögð hans urðu okkar manni til lífs. Hjartað stoppaði í bílstjóranum.

Hugsið ykkur aðra atburðarás...annan stað...bíllinn á mikilli ferð...öðruvísi farþegi.....

Réttur maður á réttum stað.

Frábært


Ó mæ

ég er svo mikill öfuguggi. Í dag er ég á skjön við flesta aðra á Íslandi. Ég er svo hjartanlega glöð og ánægð að það er leitun að öðru eins.

Jahérna...það ætti að tappa mér á flöskur og gefa öðrum. Verst að ég er svo lítil að það dygði ekki á mjög margar flöskur Errm

Annars hef ég ekkert að segja eins og er. Er nebblega upptekin við að láta ljúga að mér og það truflar mig ekki einu sinni !


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband