Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Góðan daginn

ég er búin að skrúbba á mér munninn með sápu enda stóð ég fyrir lygum í gær, barnið steinhætti við að mæta og ég hélt hinu gagnstæða fram. Það er samt minna en sólarhringur í komu þess, gangsetning klukkan 8 í fyrramálið.

Ég hef verið að spá í jólagjafir..sko handa okkur gamla. Það gengur svona sæmilega að spá í það, rúmföt og bækur svona hvað efst á vinsældalistanum á meðan styttur og svoleiðis dótarí er eiginlega neðst. Ég leit við á www.visir.is og þar fann ég það sem ég vil EKKI í jólagjöf og það er amk ágætt að vera komin með lægsta punktinn í þá áttina. Það myndi vera þetta hérna .

Fiskurinn virkar ennþá, allaveganna er skapið ágætt....ja að flestu leyti nema símadruslan mín tók upp á að hringja,kannaðist ekki við númerið og þá stundum ansa ég ekki. Ég er sannfærð um að símar eru af hinu illa.

Hér er stilla og hvuttar nota það í ystu æsar, opið út í garð og þeir valsa um hæstánægðir. Gleði mín er að fjara út, það kemur svo kalt inn...!

Ég fletti jólablaði áðan en náði ekki nema helming, þá fannst mér umstangið ætla að æra mig alveg. Jólin mín eru friðsæl og snúast um að sitja saman með þeim sem til næst af familíunni. Þau snúast ekki um brjálaðar hreingerningar (hreingeri á vorin) baka sautján sortir (kaupi 2-3 í búð) og annan trylling.


í dag

hef ég verið geðvond, það er algerlega úr takti við sjálfa mig.

Svo tók ég að mér ljósmóðurmsnsamband...og ekki var hægt að treysta mér fyrir því heldur, það var hrollur í mér og ég breiddi ofan á mig hérna....og steinsofnaði ! Komst að því í dag að hin amman á afmæli í dag, það hefði verið flott fyrir hana að fá barnið í afmælisgjöf...en líkurnar eru sífellt minni eftir sem klukkan verður meira. En ég held að ég þori loksins að segja að þetta sé að fara í gang....rólega en samt nokkuð örugglega.

Svo eldaði ég kvöldmat og í fyrsta sinn í okkar búskap þá borðaði Steinar ekki matinn sinn. Við vorum með saltfisk sem við keyptum í dag og suðum. Hann hefur verið orðinn úldinn áður en hann fór í salt og við gátum ekki borðað hann. Bjakk...kaupi ekki aftur frá þessu fyrirtæki.

Skrapp í Bónus í dag...labba inn og um leið byrjar tears in heaven í útvarpinu. Það varð til þess að allt innkaupaæði rann af mér og ég lúpaðist út aftur og náði ekki einusinni að eyða 4000 krónum, það eru léleg afköst í Bónus.

Svo eyddum við kallinn kvöldinu í að raða bókhaldinu sem hefur setið á hakanum síðan í ágúst..smátt og smátt rennur lífið í réttar skorður....en Himmaleysið kvelur sárt. Strákanginn hennar mömmu sinnar.

Bangsinn minn er á næstsíðustu vaktinni þessa vikuna, ég er alltaf jafnfegin þegar hann er í fríi. Hann fer með mér um allt og er mér endalaust góður..við tölum mikið um Himmann okkar og knúsumst. Hann varð eitthvað órólegur um daginn, sá einhvern missa mömmu sína og það truflaði hann. Hann sagðist ekki geta gert það, hann myndi bæði missa mömmuna sína og besta vin sinn. Það þótti mér vænt um að heyra. Þegar hann var fimm ára þá tilkynnti hann að hann ætlaði alltaf að vera hjá mér, hann er á góðri leið með að efna það og aldrei hef ég verið þakklátari fyrir það en eftir þessa dimmu daga.

Skapið skánaði samt heldur við að éta úldinn fisk og það er bara ágætt núna. Tímabilið þegar ég ætlaði alltaf alveg vitlaus að verða á kvöldin er sem betur fer liðið hjá. Ég sakna hans hræðilega en það er aðeins annar blær á þvi orðið.

Ég verð fegin þegar ég get lagt öll spil á borðið og reynt að fá botn í málið.

Klúsiklús eins og hann sagði alltaf sjálfur í gæðaköstunum sínum, farið vel með ykkur í nóttinni.

ps takk fyrir öll notalegu kommentin við síðustu færslu.


Að halda úti svona

bloggi getur verið heilmikil vinna. Ef maður hefur ekki mikið hugmyndaflug þá er nokkur hætta á að efnistök verði einhæf, svo maður tali ekki um bloggbesserwisserana sem telja sig hafa hina heilögu blogguppskrift. Sá á hlaupum hjá einum um daginn að hann taldi bloggara vera einhvert botnfall samfélagsins, ég glotti. Ég hef lengi haft þá bjargföstu skoðun að fólk sem talar svona um aðra getir fátt betur en að lýsa eigin innræti með orðum sínum. En þetta ætla ég ekki að tala um....

Nú orðið finnst mér meira gaman að lesa hjá öðrum en skrifa beinlínis eitthvað sjálf, en ég þarf að taka mig verulega á í að kvitta.

Ég veit það svosem ekki fyrir víst en stundum hef ég á tilfinningunni að hérna séu aðilar að lesa sem ekki eiga beinlínis neitt erindi með það, fólk sem er illa við strákana mína....kannski er þetta paranoja.

Bjössi hafði gaman að því að vera umtalsefni í gær, hann glotti og tók undir það að vera dekraður. Sagðist sko eiga það inni eftir áralangan örverpisstimpil. Blessað barn.

Við spjöllum mikið saman við Bjössi. Hann hefur oft spáð í eins og önnur ungmenni sem ekki eiga foreldra sem búa saman, hvort ekki sé samt allt í góðu. Ég segi honum oft að ég sjái ekkert eftir sambúðinni við pabba hans, það séu hreinar línur. Hefði ég ekki búið með honum þá hefði ég ekki átt þá þrjá. Hann var að tala um þetta í gær og ég sagði honum að kannski hefði ég þá átt aðra þrjá, og kannski ekki nærri eins skemmtilega...hehe. Maður getur ekkert lifað lífinu með eintómri eftirsjá og sífellt horft til baka, það virkar ekkert. Maður gerir það sem maður getur, það sem maður nær ekki að leysa setur maður bara niður og lætur eiga sig. Æðruleysisbænin virkar nebblega fyrir fleiri en alkana...

Ég hef lært mikið af lífinu en mest um vert er að ég hef bæði lært að fyrirgefa og sýna æðruleysi. Það nýtist mér vel.

Svo er að sjá hvað gerist, nær hugmyndaleysið yfirhöndinni eða hvað....


Pirruð á fyrirsögn

sem blasti við mér í Mogganum í dag...ég veit vel að fólk segir svona, ég held að það viti hreinlega ekki hvernig það virkar. Þetta á að vera hugljúf saga um konu sem elst upp við mikla áfengisneyslu á heimilinu...svo er sögupersónan látin segja að hún vilji frekar horfa á eftir börnum sínum í gröfina en í neyslu áfengis....hrmpf.........

Ég henti blaðinu !

Solla mundi nokkuð sniðugt í dag, gömul Himmaminning. Þetta gerðist á afmælinu hennar þegar hún varð 11 ára. Mamman búin að baka köku og skreyta hana meðal annars með tveimur tölustöfum úr nammi. Kökunni var svipt á borðið og afhjúpuð. Á henni stóð einn vesældarlegur tölustafur....frökenin ekki ánægð með þetta, að vera bara að verða eins árs. Hilmar botnaði nú ekki í þessu írafári útaf næstum ekki neinu...hehe. Hann var alla tíð ótrúlegur nammikall....

Bloggvinkona mín stendur í afar erfiðum sporum þessa dagana. Við skulum sameinast í að senda henni fallegar hugsanir og falleg styrkjandi skilaboð. Hún er dugleg að hlúa að sjálfri sér en þetta hefur samt áhrif inn fyrir skelina.

Kertasíðan hans Himma er líka ágæt í að sýna henni stuðning og samhug okkar hinna.

Björn lenti á bakaríinu í vinnunni, hann vinnur sem öryggisvörður í rólegri búð. Nema í gærkvöldi .....hann var fluttur til og settur í Austurstrætið sl nótt. Þar brasaði hann alla nóttina innan um bytturnar, kom heim steinþreyttur í löppunum enda hafði hann ekkert getað sest niður alla nóttina. Venjulega hefur hann tíma til að setjast niður og lesa blöðin. Núna kom hann heim engu nær og sá ekkert blað eða nokkurn skapaðan hlut.

Mamma lagaði ástandið aðeins með að vekja hann með kaffi og skutlast með hann í BT að kaupa leik.


Kaldur sunnudagsmorgun

og þegar þetta er skrifað eru engar fréttir af viðburðum helgarinnar. Ég er svoddan aumingi þegar kemur að óförum fólks við skál. Þetta getur pirrað mig endalaust,líf fólks í rústum og allt í voða og vegna hvers...einhverrar mýtu um að það tilheyri að drekka áfengi til að skemmta sér.

Hugur minn hefur verið hjá þeim mæðrum horfa á glæfraför barna sinna sem hlekkjuð eru í líf fíkilsins...þær vita jafnvel og ég að ekki fyrir svo mörgum árum voru börn þeirra sætir sakleysingjar sem öllum þótti gaman að kjá framan í. Einhversstaðar breyttist það og nú er líklega málum þannig komið að öll umræða um viðkomandi barn er blandin þunga, fólk veit ekki hvað það á að segja eða gera.

Þegar þau eru lítil þá tökum við af þeim það sem þau geta meitt sig á, geymum skæri og hnífa á öruggum stað. Þegar þau eru orðin stærri og virðast ákveðin í því einu að koma sér í voða vegna eiturefna þá getum við svo lítið gert. Við getum reynt að hjálpa þeim meðan þau eru yngri en 18 ára en eftir það er fátt hægt að gera. Öllu máli skiptir að fá aðstoð einhverra sem þekkja til þessara mála. Sumir leita til AlAnon samtakanna, þau er góð. Aðrir leita til foreldrahúss, þar eru líka miklir snillingar á ferð.

Meðan ég reyni að fyrirgefa sunnudeginum tilvist sína þá vil ég hugsa til mæðranna í þessum sporum.


ekkert að gerast

enn í bumbunni....það verður gaman þegar þetta barn kemur, það verður ljós punktur á afar erfiðu ári. Það hafa horfið okkur 3 nákomnir á þessu ári og fleiri í námunda við okkur.

Ég ætlaði bara að tilkynna þetta með að barnið er ekki komið...hef svosem ekkert að segja í bili.


í sofandi borg

sem var að mestu róleg í nótt. Ránstilraun í Grafarvogi sem ekki heppnaðist en þeir náðust ekki. Stutt er síðan ungir menn réðust inn í verslun, þeir náðust og amk 2 þeirra fóru og töluðu við búðareigandann og báðust afsökunar. Stundum mana krakkar hvern annan upp í eitthvað, það koma svona bylgjur af einhverri vitleysu en svo líður það frá. Vonandi endar þetta bara ekki með ósköpum áður en það fjarar út.

Um daginn var ég að velta upp hvort við ættum að láta menn sem hingað koma að vinna framvísa sakavottorði. Þá var ég meira að vísa til þessara mann sem frömdu þessa hroðalegu nauðgun í miðborginni. Nú er komið á daginn að þeir tveir félagar eru dæmdir fyrir afbrot í sínu heimalandi. Í morgun rak ég svo augun í það að Th. Malakauskas, úr líkfundarmálinu, er kominn hingað aftur, á sínum eigin skilríkjum þó að hann sé í endurkomubanni.

**Í Litháen munu vera í gildi reglur um að maður geti tekið upp fjölskyldunafn eiginkonu sinnar. Nafnið breytist við að skiptast í karlkyn þannig að eftirnafn hjónanna verður ekki eins. Heimildir Vísis herma að pappírarnir sem Tomas ferðaðist á hafi verið á því nafni og þeir hafi líklega verið fengnir með löglegum hætti í Litháen. **

Viðbót við þessi ummæli um Thomas, rétt skal vera rétt.

 Einhver fær á baukinn suðurfrá. Við verðum náttlega fyrr eða síðar að horfast í augu við hvert við ætlum að stefna.Verst er að þegar Íslendingar taka upp á að setja reglur þá verða þær oft svo yfirgengilega flóknar og ósanngjarnar....Mér líst amk best á að menn sem ætla að vera hér til langdvalar framvísi sakavottorðum.

                             °°°°°°°°°°skilaboð til vinar í vanda°°°°°°°°°°°°°°

Fyrstu örlagasporin þegar foreldrar leita sér aðstoðar vegna vanda barna sinna eru oft þau þyngstu. Vel þarf að vanda sig til að gera ekki vont verra. Ég held að snillingarnir í foreldrahúsi séu þeir allra bestu að hjálpa til að finna leiðir. Svo veistu hvar ég á heima -þið erum velkomin.

                            °°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°

Litla ömmukrílið neitar enn að mæta og kannast ekki við að hafa átt að mæta einhvern sérstakan dag. Krílið verður rekið út úr hlýjunni um miðja næstu viku ef það ætlar að þrjóskast lengur við.

Bjarndýrið mitt hefur tekið að sér aukastarf, hann vinnur nú hörðum höndum við að siða til bifreiðastjóra sem sjá um akstur almenningsvagna á Álftanes. Þeir keyra eins og morrar segir hann brúnaþungur yfir þessu.

Haukur minn litli stóri frændi bauð til veislu í gær, við litum aðeins við þar. Svo merkilegt, systir mín er með svona instant kaffi. Undir venjulegum kringumstæðum þætti mér ekki varið í það en svo merkilegt...ef það er hjá henni þá finnst mér það fínt. Enda besta systir sem hægt er að eiga.

Var að skoða vinnuplanið mitt fyrir jólin og ég slepp bara næstum alveg öll jólin við vaktirnar, heppin ég. Slapp ekki svona vel í fyrra...ætla að reyna að smala saman mínu liði í mat. Sé hvernig það gengur hjá mér.

Ég er búin að vera að hugsa til baka, ég hefði átt að stefna fólki til mín í kringum afmæli Hilmars, ég hafði bara ekki rænu á því. Mitt fólk má þá prnkta hjá sér að drífa sig til mín næst þegar líður að þessum erfiðu dögum sem minna sárast á stöðu mála. Sko það er ekki víst að ég hafi rænu á þessu en þið hafið þá vit fyrir mér.

Ég held að svefnvandinn sé kominn hinumegin í rúmið, nú sefur hann helst ekki og aðgætir mig öðruhvoru allar nætur. Ég hef verið farin að haga mér eitthvað skringilega, það er ljóst.

Fyrir okkur konur og mæður bendi ég í dag á síðuna hjá Guðmundi Jónssyni, þar er fín færsla og skemmtileg


Dagurinn er í dag

sem ég hugsa. Ég fór að hugsa þegar ég las hjá einni vinkonu minni, hún er að hafa áhyggjur af því að hún sé að velta sínum vanda yfir á aðra sem kannski kljást við stærri sorgir.

Fólk hefur stundum sagt þetta við mig, æj afhverju er ég að íþyngja þér með þessu, þú hefur nóg með þig!

Málið er að ég hef ekkert einkaleyfi á sorginni. Það lifir hver maður í sínum eigin raunveruleika og ég er þess ekki umkomin að dæma sorg annars sem léttvægan í samanburði við mínar raunir. Það er engin sorg léttvæg. Það sem kvelur einn er nóg til að setja þann aðila í kerfi, hver er þá ég að dæma það sem ómerkilegt ?

Við erum öll löngu búin að læra að lífið er ekki áfallalaust, öðru nær. Ég hafði ekki val um hvort ég vildi þessi sorgarspor en ég get að sumu leyti valið hvað ég geri við þau. Mín leið var að sýna ykkur þau. Sumir gætu sagt athyglissýki og þá glotti ég og aðrir sem þekkja mig. Ég er svona kona á bakvið tjöldin, það fer nákvæmlega ekkert fyrir mér. Þetta varð mín leið. Hún dugði reyndar ekki ein og ég mun þurfa að taka fleiri skref áður en ég verð eitthvað lík mér gömlu sjálfri.

Ekki hlífa mér við ykkar sorgum vegna þess að þið teljið þær léttvægar, mér finnst gott að láta dreifa huganum. Ég vil ekki festast í sorgarsporunum þó ég sjái að ekkert verður eins og áður.

Hérna er ég bæði með (í höfundarboxi) með emailið mitt og msn ið mitt. Þið megið nota það ef ykkur finnst þið þurfa þess.

Bara ekki setja mig á stall sem einhvern töffara,það er ég ekki. Ég er mamma Himma. Í gegnum lífið hef ég öðlast nokkurt vit á málefnum fíkla og fanga, hef líka bílaáhuga ef það dugar fyrir einhvern og áhuga á hundum hehe....

Það sem ég hef hins vegar ekki vit á er hárgreiðsla, förðun og tíska...bara sorrý. Sumt hefur komið til vegna ofnæmis en annað vegna áhugaleysis á málefninu.

Klús inn í daginn....ég verð nokkuð mikið upptekin í dag og næ kannski ekki að svara neinum neinsstaðar...en ég kem aftur, ég kem alltaf aftur.


Svaf

eins og steinn. Tók samt bara hálfa svona pillu, ég er svo rög við pillur að það hálfa væri nóg. Ég man að ég rumskaði eitthvað aðeins í nótt en miðað við veður og háttalag hunda um nótt þá hefði ég átt að vakna miklu meira.

Steinar sagði að það hefði verið svo mikið slagveður þegar hann setti þá út að pissa í morgun að Lappi hefði snúið við í dyrunum.

Annars er ekkert að frétta. Ekkert barn komið það ég veit og dagurinn verður nokkuð annasamur hjá mér. Hann inniheldur m.a. jarðarför, vinnu og afmæli.

HAUKUR TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ!!!!


Jæja

stundum hissast ég á asnalegustu hlutum. Áðan var umfjöllun um hlerunarbúnað sem löggi laumaði á bíl manns. Manns sem búinn að með sína afplánun en það er efni í annan pistil. Það sem sló mig útaf laginu var einfaldlega þetta ; maðurinn fann búnaðinn þegar hann gat ekki opnað skottið á bifreiðinni sinni. Eins og ég skildi það þá var það búnaðurinn þess valdandi að skottið opnaðist ekki. Jæja strákar og stelpur í löggunni, nú er að skella sér að hraðnámskeið í því hvernig fela á slíkan búnað. Mér skilst að það sé hver að verða síðastur, það á að þrengja heimildir fyrir slíku eftirliti.

Óboj...ekki myndi ég vilja vera löggan sem ætti að fylgjast með ferðum mínum.

13.40 Kelling í sófa

15.12 Kelling á klói

18.10 Kelling bakvið eldavél (Anna skilur þennan og þeir sem hafa komið hingað)

18.30 Kelling á horfa á fréttir

23.30 Kelling andvaka

01.45 Kelling andvaka

03.02 Kelling andvaka

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband