28 nóvember 1918

Plágan er nú mikið á undanhaldi en þessa klausu rakst ég á.

 BARNAHÆLIÐ

Í fyrradag dó þar stúlkubarn Kristjáns Hall bakara, sama daginn og foreldrar þess og fóstra voru greftruð. Dag og nótt hafði föðursystir barnsins, frú Anna Ásmundsdóttir,verið við rúm þess og hjúkrað því, en það kom fyrir ekki. Dauðinn sigraði og það fylgir nú foreldrunum í gröfina.

Annars líður börnunum yfirleitt vel. Langflest eru hress og eru að leikjum í einni stofunni. Þau eru kát og una sér vel hjá því ágætisfólki sem gætir þeirra.

ÞAÐ VANTAR FÖT

Þegar vér í gær komum í Barnaskólann og spurðum hvort nokkuð vantaði, var oss svarað því að það vantaði tilfinnanlega föt handa börnunum. Vér vorum sérstaklega beðnir að útvega hjá lesendum Morgunblaðsins ,sem aldrei láta bregðast að verða við slíkum beiðnum vorum. peysur. Það vantar utanyfirpeysur á 2-6 ára börn. Þær mega vera notaðar. Sendið þær á Barnahælið í dag. - Þá vantar og kjóla á ársgömul börn, svuntur af öllum stærðum fyrir börn.

Vér trúum ekki öðru en að lesendur sjái umhirðulausu börnunum fyrir þessum smámunum.

29 nóvember er þessi grein í Morgunblaðinu.

Barnahælið

Það stóð ekki á lesendum Morgunblaðsins með að sjá fátæku börnunum í Barnaskólanum fyrir fötum. Í gærmorgun flutti P.J. Thorsteinsson stórkaupmaður oss 500 krónur frá hlutafélaginu Bræðingur og tók það fram að það ætti að vera til fata handa börnunum. Daniel Bernhöft bakarameistari sendi 100 kr,. frú J. Fossberg 25 kr., Verslunin Breiðablik 100 kr., Zophónías Baldvinsson 100 kr., Ungfrú Snorra Benediktsdóttir 25 kr. Samtals nema þessar gjafir kr. 850.00. Munum vér í dag afhenda réttum hlutaðeigendum upphæðina til að hægt sé að kaupa ný föt handa börnunum þegar í stað.

Þau þurfa öll undantekningarlaust að fá ný hlý nærföt, helst tvent af hverju , og að minsta kosti þrenn pör af sokkum. Ný utanyfirföt þurfa þau öll og þá ekki síst sterk og góð stígvél, helzt vatnsleðurstígvél og auk þess klossa og inniskó. Reykvíkingar ættu að sjá svo um að öll börnin geti horfið aftur heim úr Barnaskólanum ,þegar að því kemur, vel fötuð,hrein, feit og ánægð. Hugsið ykkur , kæru lesendur, öll glöðu andlitin sem koma aftur þeim til föður og móður, þau sem svo hamingjusöm eru að eiga foreldra og hin til ættingjanna. Hugsið ykkur hve glöð og ánægð þau verða yfir nýju fötunum, nýju skónum eða stígvélunum og öllu því sem þau hafa fengið á hælinu. Og hugsið ykkur hversu miklu betur þessum olnbogabörnum bæjarfélagsins líður er þau eru í hreinum, hlýjum nærfötum, í sterkum utanyfirfötum og kanske í góðri kápu utan yfir?

Fyrir þessar 850 krónur er hægt að kaupa mikið handa börnunum. Það má ganga að því vísu að sá kaupmaður sem verzlað verður við, setji lægra verð á varninginn ef fram á það verður farið.

Í Barnahælinu er nú glatt á hjalla á hverjum degi meðal hressu barnanna. Rugguhesturinn, sem David Copland gaf, stendur þar á miðju gólfi og börnin skiftast á um að ,,fá sér sprett". Samkomulagið er ekki alt af gott um það hver eigi nú að stíga á bak folanum, en það er ætíð jafnað með hægð af þeim konum og stúlkum sem gæta barnanna. Myndabækur, brúður, tindátar og alls konar leikföng eru í ríkum mæli og eykur mjög á velveruna. Þar er lítill strákur einn, um 4 ára, laglegur og efnilegur. Hann kallar John Fenger ,,pabba" er alt af síbrosandi og sækir það fast stundum að koma á bak klárnum. Hann er afskaplega stoltur af nýjum inniskóm sem honum voru gefnir nýlega. Sko ! segir hann og lyftir upp fætinum. Skórnir eru marglitir, með loðkanti, og stráksi hefir ekki augun af þeim. Svona eru mörg dæmi. Lítil telpa fékk nýja svuntu. Hún stóð lengi úti í horni og horfði niður á svuntuna. Hún hafði aldrei séð nokkurn hlut jafn fagran.

Það er ánægja að koma í Barnaskólann. Þeir sem þangað komu fyrsta daginn og sáu hvernig börnin sum litu út, er þau voru flutt á hælið og koma þangað nú, þeir sjá svo mikinn mun á börnunum að undrum sætir.

Því fólki sem int hefir af hendi þetta mikla líknarstarf fyrir börnin verður aldrei nógsamlega þakkað starfið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ragga, það er frábært hjá þér að birta þetta, yndislegt að lesa. 

Ásdís Sigurðardóttir, 25.11.2008 kl. 17:37

2 identicon

Það er á tæru að krakkar í dag eru ekki svona nægjusöm eða gleðjist yfir svona litlu. Alla vega ekki þau börn sem eru nálægt mér.

Hins vegar held ég að það mætti alveg lesa svona frásagnir fyrir þau og foreldrarnir að lesa.

Knús og klús

Kidda (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband