Morgunblaðið í dag

sjá baksíðu og miðopnu.

Þar er verið að fjalla um meðferðarheimili sem ætluð eru ungu fólki sem kljást við eiturlyfjavanda. Lengi hefur fagfólk talið að slík heimili séu það rétta fyrir slíka einstaklinga, það taldi ég líka þar til ég prufaði það á einum minna krakka. Minn varð fyrir einelti í skóla og fann leið útúr því að hann hélt. Hann varð hroðalegur töffari og kaldur kall. Fór að nota allskonar efni og sá ekki með nokkru móti villu síns vegar. Marglokaður inni á neyðarvistun Stuðla. Mamman þrammaði í þar til gerð yfirvöld og vildi fá aðstoð með sinn orm. Það tók tíma en eftir c.a. 2 ár þá var hann settur á svona meðferðarheimili, huggulegt sveitaheimili með starfsfólki og auðvitað fullt af öðrum krökkum í sömu stöðu. Þarna var hann ákveðinn tíma en svo var honum skilað til móður sinnar...í svo sem ágætis formi.

Smátt og smátt kom hann með upplýsingar um veruna þar. Fyrst tók ég afar takmarkað mark á honum. Nokkrir vinir sem hann hafði eignast þarna kíktu til okkar. Þeir voru með svipaðar yfirlýsingar um veruna þarna.

Smátt og smátt rann upp fyrir mér ljós. Hann hafði verið í geymslu, án allrar fagþjónustu sem maður myndi ætla að þyrfti að vera á slíkum stað. Hann hafði eiginlega bara verið fjósamaður í sveit í 18 mánuði. Sumt sem krakkarnir sögðu var eitthvað sem ekki á að eiga sér stað, hvorki þarna né í mannlegu samfélagi yfirleitt.

Ég hugsaði málið nokkuð lengi en ákvað svo að skrifa til barnaverndarstofu og gera grein fyrir því sem krakkarnir sögðu. Málið var rannsakað og svo auðvitað fellt niður, en ekki hvað. Bréfið sem kom frá þessu meðferðarheimili verður mér alltaf minnisstætt. Ég fékk ákúrur frá þessu heimili fyrir að hafa vogað mér að gera athugasemdir og þau sem höfðu verið svo góð við son minn. Til að það misskiljist ekki þá voru alvarlegustu ásakanir krakkanna ekki varðandi brot gegn þeim sjálfum, heldur nokkuð sem þau urðu vitni að.

Allan tímann sem hann var þarna þá var ekkert gert fyrir okkur hin í fjölskyldunni, við vorum skilin eftir jafnbrotin og við höfðum verið.

Núna er verið að hugsa um að breyta þessu, setja upp öðruvísi kerfi og vinna með unglinginn og fólkið hans sem heild.

Í þessari umfjöllun er rætt við unga afbrotamenn og þeir vilja heldur vera í fangelsi en á þessum meðferðarheimilum sem boðið er upp á.

Við foreldrar fíkla og fanga erum ekki þrýstihópur. Það er búið að vega að okkur á þann sárasta hátt sem til er. Börnin okkar eru í voða og við erum brotnar sálir.

Það þarf líka að vera með mismunandi úrræði fyrir mismunandi krakka. Himmi var settur í rannsóknarvistun á Stuðlum þegar hann var 15 ár. Hann var innan um krakka sem höfðu verið í harðri neyslu. Hann hafði ekki verið í neyslu fram að þeim tíma. Hvað ætli hann hafi lært þarna innan um hina ? Neyslan var samt aldrei hans akkilesarhæll, hann átti við annarskonar vanda að stríða.

Breiðavík samtímans er kannski nær okkur en við höldum en nú er málið, ætlum við að bíða í 15-20 ár eftir að birtist hópur illa farinna manneskja eða ætlum við að hafa vit á að skoða þessi mál og hafa þau í reglulegri endurskoðun ?

Okkar er valið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarndís Helena Mitchell

Úff, ég fékk hroll við að lesa þetta. Þetta er dagsatt, og mikið má ef duga skal. Ég held líka að ef farið verður að vinna með fjölskylduna alla, sem eina heild, að þá komi það til með að skila sér betur til veika einstaklingsins, betri stuðningur og samheldni í kring um hann. En þetta getur líka brugðist til beggja vona. Ég vona að lausnir sem virka finnist og því verði fylgt eftir núna. Ekki bara í framtíðinni. Knús á þig

Bjarndís Helena Mitchell, 26.1.2008 kl. 13:34

2 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

Á eftir að lesa Moggann, geri það seinna í dag, og þá sérstaklega þetta sem þú ert að benda á.

Mikið vildi ég að þú værir einhversstaðar þar sem þú gætir tekist á við þessi mál verklega og með völd, ég held að það væri svo sterkt að fá inn fólk með þína reynslu og þína lífssýn í nefndir og ráð sem tengjast einmitt þessum börnum okkar sem lenda illa í svona málum.

Sendi þér hjartans kveðju Ragga mín, mér er farið að þykja svo vænt um ykkur mæðginin, hann Himma þinn og þig, og met það sem þú hefur verið að færa okkur hérna á blogginu. Bið Guð að blessa þig mín kæra, og mikið var notalegt að sjá að þar var komin færsla

Guðrún Jóhannesdóttir, 26.1.2008 kl. 13:37

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þetta er frábær grein Ragnheiður.     Það þarf alltaf að vera vakandi yfir svona meðferðar-vistunarúrræðum... framkvæmd þeirra og hvurskonar fagfólk er að störfum.  Það er rétt hjá þér að fíklar og þeirra fjölskyldur eru ekki þrýstihópur.  Það er svo auðvelt að fótum troða mannréttindi þeirra sem hafa misstigið sig einhvern tíma í lífinu.  Þessvegna þarf svona opna umræðu...... þarf stundum að vekja fólk.  Þú ert besti málsvari þessa fólks sem ég veit um.

Ég var svo glöð að sjá blogg frá þér.   

Anna Einarsdóttir, 26.1.2008 kl. 13:42

4 identicon

Á eftir að lesa greinina en þetta er einmitt málið. Það þýðir ekkert að setja fíklana okkar í geymslu, þau þurfa hjálp fagaðila. 

Knús og klús

Kidda (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 14:01

5 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Þetta er einmitt málið.....Breiðavík samtímans er nær okkur en við höldum. meðferðarúrræðin eru á stundum eins og aftan úr miðöldum, auðvitað er hvert skref yfirvalda í þessum málum gleðilegt, skrefin þurfa bara að vera miklu stærri og fleiri.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 26.1.2008 kl. 14:10

6 identicon

Frábær pistill og ég tek innilega og af öllu hjarta undir það að Breiðavík samtímans er ótrúlega nærri okkur. Ég tala af nokkrum viðkynnum sem ég vil ekki ræða frekar, því málið er ekki bara mitt heldur og annarra. Sá annars í 24 stundum í dag að einhver kona var skipuð í Barnaverndarnefnd en vill ekki vera þar. Hún er vitaskuld lögfræðingur eða eitthvað slíkt. Hvenær fær "venjulegt" alþýðufólk færi á að setjast í slíkar nefndir? Og þá kannski sérstaklega þeir sem hafa reynslu af því að vera hinum megin við borðið? Ansi er ég hrædd um að það verði orðið kalt í helvíti áður en það gerist.

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 14:39

7 Smámynd: Kristín Snorradóttir

Góður pistill. Þessi málaflokkur er mér hugleikin og ég er alfarið á þeirri skoðun að vinna verði með fjölskylduna í heild, þetta er jú fjölskyldusjúkdómur.

Það er ekki nóg að setja niður meðferðarheimili hér og þar um landið, það þarf að fylgja þeim eftir og gæta að að þeir aðilar sem eru með þau hafi þekkingu á því sem þeir gera.

Hvað Stuðla varðar þá er það nú batterí sem þarf að taka til alvarlegrar endurskoðunnar, ég þekki töluvert marga fíkla sem hafa farið þar í gegn meðal annars sonur minn og öll gefa þau sömu söguna: Besti skóli í heimi til að læra á hörð efni og hvernig best er að tækla undirheimana.

Kveðja til þín Ragga mín.

Kristín Snorradóttir, 26.1.2008 kl. 15:44

8 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

ÉG hef ekki séð Moggann, en kannski ég ætti að lesa þetta.  Helgi er í Götusmiðjunni og við kíkjum stundum til hans, mér finnst hann hafa haft það mjög gott og vera ánægður.  Er verið að fjalla um Götusm. í þessum blaðaskrifum.

Ásdís Sigurðardóttir, 26.1.2008 kl. 15:45

9 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ragga mín þú kommentaðir hjá mér í fyrradag að ég held.
þú sagðir: ,,Æj. framkoma við ómaga á árum áður var skelfileg".
Það er rétt. Er ekki framkoma fólks í dag bara alveg eins og þá.
Jú hún er það, siðlaus, hrokafull, hjartalaus fyrirgefið mér dónaskapinn, en ég gæti haldið áfram endalaust, og ég er ekki hætt, en ætla aðeins að hægja á púlsinum núna.

Tek undir með þér móðir í hjáverkum. Ragga væri afar góð í svona störf.

aðeins að svara Nönnu, Konan var skipuð fyrir mistök í nefndina það átti að skipa aðra, ( það las ég allavega) Ég er alveg sammála því að það þurfa að vera einhverjir sérfróðir í barnaverndarnefndum,
eða allavega að fólk sem velst í þessar nefndir geti leitað til
sérfróðra manna í þessum efnum, EN NOTA BENE það þurfa ekki alfarið að vera háskólagengið fólk í þessum störfum.
Það er afar gott að hafa reynslu lífsins í svona nefndum,
en aðallega kærleikann Nanna mín, því það eru allt niður í lítil börn sem þarf að hlú að.
Síðan eru minnstu börnin oftast þau elstu.
þessar elskur sem eru búin að leita eftir skilning, oft í mörg ár.
Aðeins að geta þess að Breiðavík samtímans er nær en við höldum,
kannski bara í næsta húsi

                        Gaman að heyra í þér Ragga mín
                        vonandi gerist það sem oftast
                                   Þín Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 26.1.2008 kl. 15:53

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir frábæran pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 26.1.2008 kl. 16:51

11 identicon

Varðandi það sem Milla segir hér að ofan: Vissulega voru það mistök

að þessi umrædda Kristín var valin í Barnaverndarnefnd, en það sem ég átti við var að "venjulegt" fólk hefur ekki sama aðgang að þessum nefndarstörfum og þeir sem traditionelt eru skipaðir í þær. Að sjálfsögðu þarf fagfólk og menntafólk þar inn, skárra væri það nú, en það er samt í lagi fleiri eigi aðgang að þeim og geti kannski komið örlítið öðrum sjónarmiðum á framfæri. Það þurfa ekki allir að vera lögfræðingar eða félagsráðgjafar sem þar sitja. Ég tek sérstaklega fram að ég hef ekkert á móti menntafólki og telst víst til þess hóps sjálf, verandi með tvö háskólapróf og það þriðja á leiðinni! Það er líka hárrétt, fyrst og fremst þarf kærleikurinn að vera til staðar þegar unnið er að þessum málum, en lífsreynsla skaðar ekki og oft eykur hún nú á kærleik manna, ekki satt?

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 17:03

12 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Love You

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 26.1.2008 kl. 18:52

13 Smámynd: Heiður Þórunn Sverrisdóttir

Ég er ekki búin að lesa þetta alveg en las yfir þetta..ég er alveg sammála þér eins og svo oft áður.

Auðvita þarf öll fjölskyndan hjálp þegar einn er "veikur" og það er alveg sama hvað er að en það gerist alltof oft að það gleymist,Himmi fór nokkrum sinnum á sveitaheimili og var svona "vinnumaður" mér finnst það gott mál en ég minnist eitt sinn þegar ég var að fara framm á hjálp fyrir hann að þetta úrræði kom upp og ég sagði ég er ekki að byðja um sveitapláss heldur hjálp fyrir Himma þá fékk ég svarið blákalt faraman í mig...það er svo gott að hann fari til að þið getið kvílt ykkur á honum....það var ekki það sem við þurftum Himmi þurfti hjálp þá var bara sagt að ég væri ósamvinnu þíð og vildi ekki þau úrræði sem í boði væru,held að þetta viðhorf sé of mikið hjá félagsmálastofnunum um land allt.

Ég er þeirra skoðunar að það þarf að fara framm mikil endurskoðun á þessum.

Kveðja í bæinn Heiður. 

Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 26.1.2008 kl. 20:32

14 Smámynd: Steingrímur Helgason

Svakalega flott framsett kjörkuð vel rökstudd skoðun í þessum pistli sem að ég er rúmhundrað  % sammála, oft hugsað þetta, á sama hátt, en aldrei náð að greina þetta til þess að skrifa um.

Máske kominn tími til, en þú bara gerir þetta betur en ég gæti gert.

Steingrímur Helgason, 26.1.2008 kl. 21:07

15 Smámynd: .

Duglega kona, þessi pistill þinn var þarfur, verð samt að segja að sem betur fer voru/eru til sveitaheimili sem tóku að sér börn sem þurftu aðstoð,....... og fengu sem og foreldrar þeirra. Þarna tala ég af reynslu og verð þakklát ævilangt.

., 26.1.2008 kl. 21:16

16 identicon

Takk fyrir frábærann pistill Ragga mín.  Þetta er svo dagsatt hjá þér. Okkar samfélag er ekkert eins ljúft eins og sumir vilja láta það líta út fyrir að vera.

Þessi pistill hreyfði við mér. Og það ekkert smá.

Bestu kveðjur á þig.

Guðrún B. (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 21:48

17 Smámynd: Mummi Guð

Góður pistill hjá þér Ragga mín.

Þú skrifaðir um að þú hefðir sent Barnaverndarstofu bréf og niðurstaðan kom engum á óvart og greinilega ekki þér heldur. Þjóðfélagið okkar er orðið þannig að það þýðir ekkert að senda svona bréf lengur. Ef þú vilt fá leiðréttingu á einhverjum hlut eða koma á framfæri einhverju til að laga það sem miður fer  hjá ríkisstofnunum, þá þarftu að senda bréf á fjölmiðlana og helst Kompás til að fá koma þínu sjónarmiði á framfæri.

Það þýðir ekkert að senda bréf á ríkisrekna blýantsnagara.

Mummi Guð, 27.1.2008 kl. 00:09

18 identicon

Vildi kvitta fyrir innlitið. Góð færsla hjá þér, mjög áhugavert að heyra þetta.  Frábært hjá ykkur að skrifa í den, þetta þarf að gera. En ömurlegt að heyra um viðbrögðin, issssss.  Það er örugglega mikil þörf á því að fara vel í þennan málaflokk og hvað er best að gera. Það VERÐUR að gera eitthvað.

Steinvör (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 01:15

19 identicon

Frábær pistill hjá þér Ragnheiður að vanda. Sá að Ásdís nefndi Götusmiðjuna, er reyndar ekki inní því hvernig þeir starfa nákvæmlega, en mér virðist vera vit í því sem þeir eru að gera og ef oft hugsað út í af hverju ríkið hafi ekki hermt eftir Mumma, s.s. aðferðir hans því þær virðast vera að virka. Veit reyndar ekki hvort foreldrar og aðrir aðstandendur eru með í meðferð þar, en oft hef ég hugsað hvort fjölskyldur þeirra sem fara í meðferð þurfi ekki líka aðstoð? Annars hef ég ekki mikla þekkingu á þessum málum, hef verið blessunalega laus við þennan vágest sem fíkniefni eru allt í kringum mig. En það er rétt hjá þér, hlutir verða að breytast hér á landi, oft eru þessi sveitaheimili eins og þú segir bara "geymslustaðir", fósturdóttir mín lenti á einu slíku 9 ára gömul. Endaði með að pabbi hennar sótti hana einn daginn og tók hana þaðan í burtu.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 10:34

20 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Takk fyrir frábæran pistil! Mikið vildi ég að fólk eins og þú, fólk með reynslu, kæmist í þessi embætti og stöður sem eru skipaðar af fólki sem margt hefur ekki nógu mikið vit á málum til að geta ráðstafað lífi annarra.

Guðríður Haraldsdóttir, 29.1.2008 kl. 00:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband