Er samúð neikvæð ?

Fólk hefur afar misjafnar skoðanir á Eurovision keppninni, sko þessari keppni sem enginn horfir á. Nú fór svo sviplega að einn keppandinn lést í upphafi keppninnar eins og alþjóð veit. Ég horfði ekki á undanúrslitaþættina en sá lögin þegar þau komu sem innslög í sjónvarpinu.

Þau vöndust ágætlega fannst mér. Strax fannst mér lagið sem Magni flutti mjög gott, Jógvan líka ágætur en svo fannst mér lagið hans Sjonna glaðlegt og áheyrilegt. Þegar upp var staðið þá gat ég ekki gert upp á milli þessara tveggja laga.

En upp hefur risið einhver mótmælaalda. Fólk vill meina að lagið hafi einungis unnið vegna kringumstæðnanna. Það er ömurlegt að lesa sum kommentin á DV.

Samúðaratkvæði tuðar einhver þar.

Þá fór ég að spá, síðan hvenær er það neikvætt að við sýnum náungum okkar samúð og kærleik í erfiðleikum ? Afhverju á fólk að skammast sín fyrir að sýna skilning, samúð og hlýhug ?

Þórunn stóð sig algerlega frábærlega á sviðinu með strákunum í kvöld, strákarnir stóðu sig svakalega vel.

Vinsamlega munið það að alveg sama hvaða lag vinnur, það eru ekki allir sammála um ágæti þeirra en ljót orð eru svo innilega óþörf við þessar aðstæður.

Verum góð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Svarið við spurningunni hvort að samúð sé neikvæð, er neitandi. Samúð og/eða samhygð er ein þroskaðasta tilfinning sem manneskja getur sýnt.

Aftur á móti er spurning hvort að velja eigi Eurovision lag út á samúð?

Það getur enginn sagt með vissu hvar lagið hefði lent í keppninni ef að aðstæður hefðu verið öðru vísi, og það fáum við aldrei að vita.

Lagið var hresst og skemmtilegt og svolítið danskur taktur yfir því svo það er alveg að mínum smekk, og var svo sannarlega í toppbaráttunni - og hefði því eflaust verið það hvort sem það hlaut samúðaratkvæði eða ekki.

Þeir sem fluttu lagið, vinir Sjonna, konan hans og textahöfundurinn Þórunn og svo ekki sé talað um Sigurjón Brink heitinn, hljóta að vilja vinna þessa keppni á réttum forsendum. Þ.e.a.s. að lagið hafi verið besta lagið. Sem mörgum fannst það vissulega vera.

Lagið var og er flutt af einstaklega miklum kærleika sem skín í gegn og ég held að fólk finni það og sé hrifið af því, og vonandi skilar það sér til allra í sjálfri lokakeppninni.

Mér finnst að við eigum að fagna þessu lagi, samgleðjast með þeim sem hlut eiga að máli - og treysta því að því gangi vel og fái meðbyr.

Jóhanna Magnúsdóttir, 13.2.2011 kl. 08:53

2 Smámynd: móðir

Ég var búin að vera að spá í þetta, hvort að lagið hans Sjonna myndi vinna útá samúð. Kannski var það svo og HVAÐ MEÐ ÞAÐ...!! Þetta er hans síðasta lag og skiptir konu hans og börn alveg örugglega mjög miklu máli að það hafi komist áfram. Er það ekki bara gott mál..?

móðir, 13.2.2011 kl. 12:55

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já það á ekki að hugsa svona.  Lagið er allt í lagi, þó svo ég hefði viljað sá annað lag.  En ég er ekki sammála um lagið hans Magna, mér fannst hann lakasti flytjandinn og lagði hans það leiðinlegasta.  Þó maður eigi ef til vill ekki að segja svona, þá er það bara þannig.  Annar verð ég að segja að öll lögin voru jöfn og öll vel flutt.  Mér fannst þó´Jóhanna Guðrún bera af í flutningi, með öryggi og kraft, eins var Matti góður í Eldgosinu þó ég hafi ekki fílað óperusönginn svona sterkan þarna inn. 

En ég skemmti mér hið besta.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.2.2011 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband